Við spurningu minni hverju hann spái um gengi íslensku krónunnar svaraði mér fjármálaráðgjafi í stórum viðskiptabanka að heilsa hennar væri góð þennan daginn en hefði verið afleit daginn á undan. Hvernig henni muni heilsast á morgun væri ógerningur að segja nokkuð til um.
Þessi sjúkdómslýsing hefur verið einkennandi um heilsufar gjaldmiðils Íslands um nokkurt skeið. Það er að vísu alþekkt fyrirbæri að gengi gjaldmiðla sveiflist upp og niður og jafnvel gengi öflugustu gjaldmiðla heims á það til að sveiflast. Það hefur þó óveruleg áhrif á viðskipti viðkomandi lands eða landa því hlutdeild gjaldmiðilsins í viðskiptum innan svæðisins er yfirgnæfandi en áhrif annarra gjaldmiðla að sama skapi minni. Hér á landi er þessu nánast öfugt farið. Vegna hás hlutfalls útflutnings og mikilla erlendra viðskipta en jafnframt lítils innanlandsmarkaðar hefur breyting á gengi krónunnar umtalsverð áhrif um allt efnahagslífið. Þar að auki er lítill gjaldmiðill í opnu hagkerfi í stöðugri vá. Það þarf svo litla gáru til að skelin skakist. Fátt er skaðlegra langtíma efnahagsárangri en hviklyndur gjaldmiðill. Fyrir alþjóðleg fjármálafyrirtæki sem gera upp reikninga sína í íslenskri krónu er þetta óviðunandi ástand til lengdar og ruglar allan raunverulegan árangur af starfsemi þeirra.
Misgengisrökin
Því er oft borið við að eigin gjaldmiðill sé mikilvægur til að geta brugðist við hagsveiflum, sem hér séu öðru vísi en í helstu viðskiptalöndum okkar. Kalla má þetta misgengisrök. Fræðilega séð mátti færa fyrir þessu nokkur rök. Það gaf augaleið að efnahagskerfi sem byggði á afmörkuðum og oft lokuðum heimamarkaði þarfnaðist eigin gjaldmiðils, sem endurspeglaði þróun þessa þjóðlega efnahagskerfis. Eftir því sem markaðir þjóðríkjanna tengdust meira og viðskiptahömlur minnkuðu, þeim mun meiri hindranir urðu þjóðlegir gjaldmiðlar á alþjóðleg viðskipti. Þeir voru oftar en ekki notaðir til að ná fram hagstæðum skiptihlutföllum á kostnað nágrannanna. Misgengisrökin verða mun veikari í opnu, samtengdu markaðshagkerfi.Með stofnun EES-svæðisins varð Ísland hluti af heimamarkaði Evrópusambandsins en þar eiga sér stað um 65% af viðskiptum okkar. Við verðum að gangast undir alla þá samhæfingu, sem þar fer fram, ef viðskipti með landbúnaðarvörur eru undanskildar. Það var rökrétt framhald sameiginlega markaðsins að taka upp evru. Það var mikil fórn fyrir Þjóðverja að leggja niður markið. Þeir hafa enn sem komið er ekki náð sér að fullu. Hinsvegar varð upptaka evrunnar til hagsbóta fyrir þjóðir sem bjuggu við veika þjóðlega gjaldmiðla því allt viðskiptaumhverfi þeirra varð stöðugra. Írar gátu t.d. keyrt hagkerfi sitt áfram með miklum hagvexti vitandi að evran myndi tryggja stöðugleika til lengri tíma. Evran veitti þeim það skjól sem þeir þurftu. Hún var ekki hindrun, heldur forsenda trúverðugs hagvaxtar. Hefðu þeir búið við "sjálfstætt írskt pund", hefðu afleiðingarnar orðið mun alvarlegri.
Hvaða hagsveiflur mynda misgengið?
Röksemdir andstæðinga evrunnar eru aðallega þær, að svokallaðar hagsveiflur séu með öðrum hætti hér en í helstu viðskiptalöndum okkar, og því þurfum við að viðhalda sérstökum gjaldmiðli. Þetta er misvísandi og þarf að skoða eðli einstakra hagsveiflna til að fá úr því skorið hvort þetta eigi við rök að styðjast. Skoðum það því nánar.Í fyrsta lagi eru til hagsveiflur sem orsakast af breytingum á verði útflutnings okkar á erlendum mörkuðum. Vegna stærðar EES-markaðarins í heildarútflutningi okkar, móta sveiflur þess markaðar hagsveiflur af þessum toga hér heima. Þær eru því sambærilegar hér og í þessum helstu viðskiptalöndum okkar. Misgengi af markaðslegum ástæðum er því óverulegt.
Í öðru lagi eru hagsveiflur sem eru afleiðingar af miklum breytingum á sjávarafla séríslenskt fyrirbæri, og eiga sér litla sem enga samsvörun í öðrum hagkerfum. Fiskveiðistjórnunarkerfið hefur þó dregið verulega úr aflasveiflum og breytingar á veiðikvóta eru útreiknanlegri og þar með viðráðanlegri en áður var. Þar að auki er vægi sjávarútvegsins í þjóðarframleiðslu léttvægara en áður var og áhrif hans á afkomu þjóðarbúsins því minni. Nú styttist í það að fjármálastarfsemi og viðskipti í útlöndum vegi þyngra í þjóðarbúskapnum en þessi gamli atvinnuvegur okkar.
Það er þó ekki einskorðað við Ísland að einn atvinnuvegur hafi sterkari stöðu innan atvinnulífsins en aðrar atvinnugreinar. Allar þjóðir og jafnvel landshlutar í stórum ríkjum búa við svipaðar aðstæður og við. Ein atvinnugrein er oft undir aðra sökina seld en hinar og fellur ekki að heildarhagsveiflum hvers tíma. Við getum rifjað upp samlífi sjávarútvegsins og iðnaðarins þegar gengi krónunnar var ákveðið fyrr á öldinni sem leið, og sem endurómar enn þegar gengi krónunnar fer mest úr böndunum.
Í þriðja lagi eru það hagsveiflurnar sem við búum til sjálfir. Þær verða alltaf og í öllum löndum á skjön við "hefðbundnar hagsveiflur. Ef ríkisstjórn einhvers lands, hvort sem það heitir Ísland eða Danmörk vill kynda verulega undir efnahagslífið með risaframkvæmdum eða fjármálastofnanir taka upp á því að ausa út ódýrum peningum til almennings, þá verður afleiðingin hagsveifla sem er að öllum líkindum á skjön við það sem er að gerast í helstu viðskiptalöndum okkar. Sama getur átt við um kjarasamninga á vinnumarkaði. Þetta heimagerða rótleysi er eina hagsveiflan sem er hættuleg gengisstöðugleika og gegn henni er aðeins til ein vörn, sterkur gjaldmiðill. Það er því rangt að segja að við getum ekki tekið upp evruna vegna misgengis í hagsveiflum heima og erlendis, því við búum til stærstu misgengin sjálf og getum því haft stjórn á þeim.
Reynsla okkar af eigin gjaldmiðli
Hver hefur verið ávinningurinn af "sjálfstæðum" gjaldmiðli? Hver hefur reynsla okkar Íslendinga verið undanfarin ár? Við búum við hæstu vexti innan OECD. 14,5% stýrivextir eru einsdæmi. Hverjir skyldu borga þetta vaxtaokur? Það skyldu þó aldrei vera við sjálfir? Við búum við eina mestu verðbólgu af fyrrnefndum ríkjum. Tekjuaukning okkar og hagvöxtur undanfarinna ára er að verulegu leyti fenginn að láni erlendis, því við erum skuldugasta þjóð innan OECD og þó víðar væri leitað. Árangurinn er – óstöðugleiki í gegni, verðbólga, ofur vextir og erlend skuldasöfnun. Þá skulum við muna að krónan er öflugasta vörn einkasöluaðila og framleiðenda fyrir innlendan markað gegn raunverulegri samkeppni erlendis frá. Á meðan krónan er gjaldmiðill okkar má færa gild rök fyrir því að verðlag hérlendis verði áfram miklum mun hærra en verðlag erlendis. Krónan veitir innflytjendum og framleiðendum nú til dags sams konar vörn gegn samkeppni og fjarlægðin frá öðrum löndum veitti þeim á síðustu öld. Hún tryggir fákeppni og hátt ógagnsætt verðlag hérlendis.Þeir sem álasa dreifingaraðilum fyrir að bera ábyrgð á hæsta verðlagi í heimi en ríghalda jafnframt í krónuna sem eins konar þjóðardjásn eru annaðhvort að blekkja eða þeir vita ekki betur. Hvort tveggja er hættulegt upplýstri umræðu.
Höfundur er hagfræðingur.