Loðnan Áhöfnin á Berki NK gerir klárt á loðnuveiðar.
Loðnan Áhöfnin á Berki NK gerir klárt á loðnuveiðar. — Ljósmynd/Óðinn Magnason
Eftir Hjört Gíslason hjgi@mbl.is BÖRKUR NK er með mestan loðnukvóta íslenzkra skipa miðað við upphafsúthlutun. Kvóti Barkar er 10.754 tonn. Fimm skip eru með meira en 7.000 tonn og eru þau, auk Barkar, Ingunn AK með 8.530 tonn, Faxi RE 8.

Eftir Hjört Gíslason

hjgi@mbl.is

BÖRKUR NK er með mestan loðnukvóta íslenzkra skipa miðað við upphafsúthlutun. Kvóti Barkar er 10.754 tonn.

Fimm skip eru með meira en 7.000 tonn og eru þau, auk Barkar, Ingunn AK með 8.530 tonn, Faxi RE 8.007, Sigurður VE 7.818, og Antares VE 7.278.

Þetta er úthlutun til bráðabirgða, en ekki er ljóst hve mikið Norðmenn og Færeyingar kunna að nýta sér af sínum hlut. Skilji þeir eitthvað eftir verður því endurúthlutað til íslenzkra skipa. Hvort úthlutun verður svo aukin kemur ekki í ljós fyrr en síðar, hugsanlega í næstu viku. Togarar á Vestfjarðamiðum hafa orðið varir við mikið af loðnu á Halanum og í Víkurál og eru trollin að koma upp grá af ánetjun.

Góð veiði hefur verið á slóðinni norður úr Sléttu, en þar eru skipin að veiðum nú. Reyndar var bræla í fyrrinótt en skipin voru að fá mjög góðan afla eftir stutt tog, upp í 700 tonn í hali.

Reyna að ná sem mestum verðmætum út úr þessu

Gunnþór Ingvason, útgerðarstjóri hjá Síldarvinnslunni, segir að þar stjórni menn veiðunum miðað við það að fá sem mest verðmæti út úr þessum litla skammti. Reynt sé að frysta loðnuna og eru um 370 tonn að meðaltali fryst á sólarhring.

"Við tökum enga áhættu í þessum efnum, sérstaklega meðan óvíst er um frekari úthlutun. Ætli menn að nýta frystigetuna um borð í skipunum og í landi, og fyrirliggjandi markaði, þarf að minnsta kosti 200.000 tonna úthlutun. Bara til að frysta 10.000 tonn af loðnuhrognum þarf um 120.000 tonn af loðnu upp úr sjó. Svo er nýting í frystingu fyrir Japan aðeins um 35%, en þá er reyndar hægt að frysta hænginn á Rússland. Við förum því varlega og reynum að nýta þessa úthlutun til að skapa sem mest verðmæti. Annars verðum við svo að vera bjartsýnir á að leyft verði að veiða meira," segir Gunnþór Ingvason.