Oddbergur Eiríksson
Oddbergur Eiríksson
Oddbergur Eiríksson fjallar um strand Wilson Muuga: "Ugglaust hefur skipið verið sjófært, það er að segja innan hafnargarða, en haffært var það ekki til siglinga um norðurhöf að vetrarlagi ..."

SKIPIÐ kom fulllestað frá Noregi og landaði farminum í höfninni á Grundartanga. Allt þetta gekk með eðlilegum hætti eftir því sem best er vitað. Síðan hefst seinni þáttur þessarar ferðar þegar festar voru leystar í Grundartangahöfn en þá var ekki allt sem skyldi.

Ugglaust hefur skipið verið sjófært, það er að segja innan hafnargarða, en haffært var það ekki til siglinga um norðurhöf að vetrarlagi og raunar ekki á neinum árstíma öðrum.

Skipið skorti kjalfestu (ballest) og því fór sem fór.

Væntanlega hefur skipstjórinn í upphafi tekið rétta stefnu fyrir Garðskagann en hins vegar, þegar þangað var komið, voru þeir aðeins um eina sjómílu frá landi. Þarna voru þeir staddir á háskalegum slóðum.

Hvað hafði gerst?

Greinilegt var að skipið hafði borið af leið.

Ástæðurnar fyrir því, að svona var komið, eru fleiri en ein.

Í fyrsta lagi var skipið tómt, aðeins hæfilegt magn af olíu í tönkum fyrir siglinguna til Murmansk, og vindfangið var óhóflega mikið. Í öðru lagi var einn þriðji eða hálft stýrið upp úr sjó. Þetta olli því, að sjálfsstýringin olli ekki hlutverki sínu og í þriðja lagi var álagið á stýrisblaðið líkast þungum höggum en ekki þrýstingi, sem er hið rétta álag þegar stýrisblaðið er í sjó. Þetta þoldi búnaðurinn ekki þegar á reyndi og höfuðskepnurnar höfðu full tök á farkostinum.

Hvað má af þessu slysi læra?

Um þessar mundir er mikið um það rætt, að framundan sé vaxandi umferð skipa í íslenskri landhelgi. Hæpið er, að við getum hlutast til um það í hvaða ástandi skip og hleðsla muni verða þegar skip koma frá erlendum höfnum til íslenskra hafna. Hins vegar ættum við að geta ráðið nokkru um þessi efni þegar skip sigla héðan.

Ég undirritaður er ekki siglingalærður maður, heldur var ég skipasmiður. Starfsvettvangur minn í 50 ár var í fjöruborðinu og þar eiga minningarnar rætur. Af þeim sökum vil ég vekja umræðu um þetta málefni. Ég veit, að margir gætu þar lagt orð í belg, sem byggð væru á reynslu og fagmennsku.

Höfundur er skipasmiður.

Höf.: Oddbergur Eiríksson fjallar um strand Wilson Muuga