ÍSLANDSVINIRNIR í hljómsveitinni Blonde Redhead munu koma fram á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður sem haldin verður á Ísafirði 7. apríl næstkomandi. Þá mun sveitin einnig halda tónleika á NASA í Reykjavík 5. apríl, ásamt Kristin Hersh og hljómsveitinni Reykjavík!
Blonde Redhead er skipuð tvíburabræðrunum Simone og Amedeo Pace og hinni japönsku Kazu Makino. Sveitin þykir sérstaklega góð á sviði, en hún hefur haldið þrenna tónleika hér á landi. Ný plata sveitarinnar er væntanleg í apríl, en hún hefur hlotið nafnið 23. Þess má geta að Skúli Sverrisson leikur á bassa á plötunni. Í framhaldi af útkomu plötunnar verður blásið til tónleikaferðar í Bandaríkjunum og Evrópu.
Kristin Hersh er aðalsprauta bandarísku hljómsveitarinnar Throwing Muses sem vakti talsverða lukku á tónlistarhátíðinni Innipúkanum á síðasta ári. Kristin féll fyrir landi og þjóð og óskaði eindregið eftir því að koma hingað aftur til að spila efni af sólóferli sínum.
Hljómsveitin Reykjavík! er nýkomin frá Hollandi þar sem þeir félagar spiluðu á Eurosonic-hátíðinni við góðar undirtektir.
Nokkrir aðilar settu sig í samband við sveitina að hátíðinni lokinni og munu þeir spila á þremur tónlistarhátíðum í kjölfarið; á Midem í Cannes í næstu viku, á ByLarm í Noregi í byrjun febrúar og SXSW í Bandaríkjunum í byrjun mars.
Að vanda koma fjölmargir tónlistarmenn fram á Aldrei fór ég suður, en þeir sem áhuga hafa á að koma fram á hátíðinni geta sótt um með því að senda tölvupóst á netfangið aldrei@aldrei.is. Á næstu vikum verður svo vefsíða hátíðarinnar opnuð á slóðinni aldrei.is.