Bergur Þorgeirsson
Bergur Þorgeirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bergur Þorgeirsson, Geir Waage og Óskar Guðmundsson skrifa um fjarskiptasamband í Reykholtsdal: "Þetta er þeim mun dapurlegra sem flestar tæknilegar forsendur eru fyrir hendi til að kippa þessu í liðinn."

VIÐ rekstur menningarstofnana eins og Snorrastofu í Reykholti, sem og hótelsins þar og ferðaþjónustu á staðnum, er afar mikilvægt að fjarskipti séu í sæmilegu lagi, þannig að hægt sé að hafa greið og góð netsamskipti við stofnanir og einstaklinga. Nútímaatvinnustarfsemi byggist á sívaxandi hátt einmitt á slíkum samskiptum. Reyndar á hið sama við um rekstur nútímaheimila; það þykja vera sjálfsögð réttindi að hafa aðgang að sjónvarpsstöðvum og ADSL tölvu-tengingum. En því miður er þessum nútíma ekki að heilsa í Reykholtsdal. Um langt árabil hefur okkur einungis staðið til boða hægfara, stirt og brothætt net-samband (um svokallað Emax eða eldra kerfi Símans) og sjónvarssendingum um örbylgju eða þráð er útilokað að ná.

Þetta er þeim mun dapurlegra sem flestar tæknilegar forsendur eru fyrir hendi til að kippa þessu í liðinn. Árið 2001 var lagður ljósleiðari hingað um hlaðið sem legið hefur ónotaður síðan. Þessu mætti líkja við að lögð hafi verið tvöföld hraðbraut við hlið troðninganna, en það væri bara bannað að nota hana.

Það er okkur óskiljanlegt að lagt hafi verið í þessa fjárfestingu ef ekki ætti að nýta hana til neins. Þegar ljósleiðarinn var lagður var Síminn í almenningseign en hvorki það fyrirtæki né samkeppnisaðiljar hafa sýnt lit á að auka þjónustuna á þessu sviði. Borið hefur verið við of háum kostnaði við tengingar við hús og stofnanir. Hins vegar var því heitið við einkavæðingu Landssímans að hluti þess fjár sem fékkst við sölu fyrirtækisins yrði notaður til að jafna aðstöðu á þessu sviði milli landsbyggðar og þéttbýlis. Eyrnamerkt fjármagn til málsins er m.ö.o. fyrir hendi hjá ríkisvaldinu. En samt hefur ekkert gerst ennþá.

Sú ríkisstjórn sem setið hefur undanfarin kjörtímabil hefur allt frá fyrsta kjörtímabili sínu heitið því að koma á jafnræði á þessu sviði. Ekkert slíkt vilyrði stjórnmálamanna hefur gengið eftir. Og í fyrra var dreift bæklingi með enn einu fyrirheiti á þessu sviði; um að hafa lokið við að koma á gagnvirku stafrænu sambandi 2007.

Fyrirtæki og stofnanir, heimili og einstaklingar á svæði einsog hér í Reykholti eru orðin langþreytt á að bíða eftir efndum stjórnvalda í málinu. Nú skorum við á þingmenn kjördæmisins að taka einnig á með okkur í þessu sjálfsagða réttlætis- og jafnræðismáli.

Bergur er forstöðumaður Snorrastofu. Geir er sóknarprestur í Reykholti. Óskar er rithöfundur og íbúi í Reykholti.

Höf.: Bergur Þorgeirsson, Geir Waage, Óskar Guðmundsson skrifa um fjarskiptasamband í Reykholtsdal