FRUMVARP um Ríkisútvarp ohf. var eina málið á dagskrá Alþingis í gær, á fyrsta starfsdegi þingsins eftir jólahlé. Ákveðið hefur verið að breyta hefðbundinni dagskrá í vikunni til að klára þessa þriðju og síðustu umræðu um Ríkisútvarpið (RÚV), að því er stjórnarandstaðan hermir, að henni forspurðri. Þingfundir munu því hefjast fyrr en ella en stjórnarandstaðan hyggst þó mótmæla harðlega ef brugðið verður út af hinum venjubundna fyrirspurnartíma á morgun, miðvikudag.
Í umræðum var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sökuð um að hafa vísvitandi leynt bréfaskiptum stjórnvalda við ESA, eftirlitsnefnd EFTA, varðandi frumvarpið um RÚV. Sagði Þorgerður Katrín ávirðingarnar beinlínis rangar. Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði alvarlegar athugasemdir við að menntamálanefnd og Alþingi hefðu ekki verið látin vita af bréfaskiptunum. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, blés á gagnrýnina og sagðist sjálfur hafa séð til þess að hver og einn nefndarmaður hefði verið látinn vita um leið og gögnin bárust. | 10