Kristján Bersi Ólafsson horfði á "skemmtilegan" handboltaleik í sjónvarpinu, þar sem Íslendingar töpuðu fyrir Tékkum. Þegar úrslitin lágu fyrir hljóp hann í svartsýnisgírinn: Á íþróttasviðinu er ekki til neins orðstír þjóðinni að skapa.

Kristján Bersi Ólafsson horfði á "skemmtilegan" handboltaleik í sjónvarpinu, þar sem Íslendingar töpuðu fyrir Tékkum. Þegar úrslitin lágu fyrir hljóp hann í svartsýnisgírinn:

Á íþróttasviðinu er ekki til neins

orðstír þjóðinni að skapa.

Niðurstaðan er alltaf eins.

Íslendingar tapa.

Björn Ingólfsson frá Grenivík var fljótur að taka upp hanskann fyrir landsliðið:

Bjartsýni manna fráleitt fer

fljúgandi í hæstu skýjum.

Bersýnilega Bersinn er

búinn að gleyma Svíum.

Og eftir sigurleik Íslendinga gegn Tékkum í gær bætti Björn við limru:

Þetta úrval af ólmhuga rekkum,

alvant í mótvindi og brekkum,

til orrustu búið

er alls ekkert fúið

og tékkaði um helgina á Tékkum.

Og vert er að minnast Ólympíuleika, kvæðis Jóns Helgasonar:

Undir blaktandi fánum og herlúðrum hvellum og gjöllum

sig hópaði þjóðanna safn,

þangað fór og af Íslandi flokkur

af keppendum snjöllum

og fékk á sig töluvert nafn:

í þeirri íþrótt að komast aftur úr öllum

var enginn í heimi þeim jafn.

pebl@mbl.is

Höf.: pebl@mbl.is