Fræg Þau eru tilbúin að baða sig í frægðarljómanum í Los Angeles – David Beckham og eiginkona hans Victoria.
Fræg Þau eru tilbúin að baða sig í frægðarljómanum í Los Angeles – David Beckham og eiginkona hans Victoria. — Reuters
SAMNINGUR David Beckham við Stjörnuþokufótboltaliðið hér í Los Angeles – Galaxy, og væntanleg koma hans og kryddstúlkunnar Victoríu, hefur vakið mikla athygli meðal fjölmiðla staðarins.

SAMNINGUR David Beckham við Stjörnuþokufótboltaliðið hér í Los Angeles – Galaxy, og væntanleg koma hans og kryddstúlkunnar Victoríu, hefur vakið mikla athygli meðal fjölmiðla staðarins. Bíða nú fjölmiðlamenn sem nærast á fræga fólkinu í borginni spenntir eftir "nýju kjöti" til átu – rétt eins og vinir þeirra á Bretlandseyjum.

Gunnar Valgeirsson skrifar frá Los Angeles

Fjölmiðlar kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að frægu fólki í stjörnuborginni okkar. Það kom mér því nokkuð á óvart þegar ég náði í okkar ágæta dagblað Los Angeles Times á föstudagsmorgun að ekki færri en níu fréttamenn, auk aðstoðarmanna, voru skrifaðir fyrir greinum um Beckham og eiginkonu hans, bæði á forsíðu og í íþróttasíðum. Venjulega lætur Times æsifréttablöðin um slíkar fréttir, enda virt dagblað, og stórfréttir um Íraksstríðið líklegri að fá slíka umfjöllun.

Töluvert er ritað um hvernig samningur Galaxy við Beckham var settur saman. AEG skemmtanaiðnaðarfyrirtækið hér í borg á Galaxy liðið, tvö önnur MSL-lið, Staples Center íþróttahöllina, LA Kings íshokkíliðið, auk fjölda annarra íþróttaliða í Bandaríkjunum og í Evrópu. Fyrirtækið rekur einnig fjölda skemmtanafyrirtækja víðsvegar um heim. Forráðamenn AEG höfðu undirbúið tilboð til Beckham um nokkurt skeið og fengu Adidas fyrirtækið, auk annarra fyrirtækja, til að setja pening í dæmið. Galaxy borgar aðeins 20% af launum Beckham, 80% launanna greiða ýmis fyrirtæki, sem búast við því að kappinn muni verða peninganna virði þegar til lengdar lætur.

Samingaviðræður hófust á nýársdag

AEG hafði samband við umboðsmann Beckham strax á nýársdag – þegar það var löglegt, og peningaupphæðin sem í boði var reið baggamuninn fyrir knattspyrnukappann á endanum. Beckham og Victoria voru bæði þegar samningsbundin ýmsum dótturfyrirtækjum AEG og er almennt talið að félagaskipti Beckham hafi meira að gera með framtíðaráform hjónanna í skemmtanaiðnaðinum, auk tilraunar AEG til að nota þau hjón til að styrkja hin ýmsu vörumerki sem tröllríða peningaþjóðfélagi nútímans.

Frá bæjardyrum MSL-deildarinnar er koma Beckhams tilraun til að auka kynningu á liðum deildarinnar um Bandaríkin og víðar, og það mun eflaust gerast.

Nýr völlur sunnan Los Angeles

Galaxy leikur á nýjum 24 þúsund sæta leikvangi fyrir sunnan Los Angeles.

Rúmlega tvö þúsund ársmiðar seldust samdægurs og fréttin um komu Beckhams birtist í fjölmiðlum. Meira að segja körfuknattleikskappinn Kobe Bryant dáðist að samningi Beckhams þegar hann var inntur eftir því.

"Hann er í frábærri samningsstöðu. Ég er ánægður fyrir hans hönd – að ná svo góðum samningi." Nýja MSL-knattspyrnudeildin hefur ekki náð eins mikilli athygli og menn vonuðust eftir, en hefur þó verið í stöðugri sókn. Beckham gæti verið sá leikmaður sem gerði gæfumuninn – í að auka aðsókn og áhuga á deildinni hjá almenningi. Þrettán lið eru nú í deildinni, sem leikur yfir sumartímann eins og heima á Íslandi. Sparksérfræðingar segja að gæði knattspyrnunnar hafi aukist undanfarin ár og nokkur liðanna náð að tryggja sér fjármagn til að festa sig í sessi.

Landon Donovan og Cobi Jones eru lykilmenn á miðjunni hjá Galaxy. Beckham mun sennilega taka stöðu Donovans á miðjunni, og er ætlun forráðamanna liðsins að láta Beckham ráða ferðinni – stjórna leik liðsins. Hann fær eflaust meiri tíma til að athafna sig á miðjunni heldur en hann gerði í hinum sterku deildum á Englandi og Spáni, þar sem leikmenn fá lítinn frið til að leika með knöttinn.

Flest lið MSL-deildarinnar leika "enskan fótbolta" og því kemur Beckham til með að ná fljótlega að laga sig að leik Galaxy.

Með því að ákveða að fara til Los Angeles er landsliðsferill hans eflaust enda, og ekki verður hann séður sem leikmaður á heimsmælikvarða lengur. Peningarnir sem hann mun hinsvegar fá næstu fimm árin, ættu þó að bæta það upp.

Beckham gæti einnig hafa ákveðið að fara til Los Angeles til að undirbúa hugsanlegan leiklistarferil. Kappinn hefur fengið tilsögn í leiklist og orðrómur er uppi um að ýmsir kvikmyndaframleiðendur í Hollywood séu tilbúnir að nota Beckham sem leikara í spennumyndum rétt eins og okkar háttvirta fylkisstjóra – Arnold Schwarzenegger – eftir að hann lauk ferli sínum sem vaxtarræktarmaður.

Ég hef lúmskan grun um að aðsókn að leikjum Galaxy muni aukast verulega í sumar. Koma Beckham í ágúst á eflaust eftir að vekja athygli og margir munu eflaust fara á völlinn bara til að sjá hann leika. Um tuttugu milljón íbúar búa innan við tveggja tíma akstur frá Carson-borg, þar sem heimavöllur Galaxy er, þannig að fjölmargir eiga eftir að skreppa á völlinn til að berja Beckham augum.

Verslunarráð staðarins fór á fulla ferð um leið og fréttin um Beckham birtist, en ég efast um verslunarfólk í Carson eigi eftir að sjá mikinn pening þótt fleiri séu á leikjum Galaxy. Fólk ekur að leikvellinum, borgar fyrir bílastæði, og tekur síðan upp peningaveski sín inni á leikvanginum og fer síðan beint heim að leik loknum.

Þótt Los Angeles sé ýmsu vant þegar um frægt fólk er að ræða, gat æsifréttafólk vart beðið þar til Beckham kæmi í ágúst. Eitt "frægra-fyrirtækið" í Hollywood hefur þegar sett fimm ljósmyndara á Beckham-hjónin, og fréttafólk leitaði meðal fasteignasala af fréttum um húsnæðiskaup þeirra.

Leitað að húsi

Þær mikilvægu fréttir komu síðan á föstudag að minnsta kosti tveir fasteignasalar væru að leita að tuttugu milljón dala fasteignum í Beverly Hills og Bel Air, tveimur af dýrustu hverfum Los Angeles-svæðisins, þar sem fræga fólkið hefur hreiðrað um sig. Victoria hefur einnig verið að leita að húsi í Malibu-borg, norður af Los Angeles, en þar á svæðinu fór Mel Gibson hamförum fyrir nokkrum mánuðum.

Beckham-hjónin eiga eflaust eftir að falla vel inn í lífið hér í Los Angeles. Hér býr fjöldinn allur af frægu fólki úr hinum ýmsu öngum skemmtanaiðnaðarins. Kannski enda skötuhjúin eins og Ozzy Osborne og fjölskylda hans. Allir í fjölskyldunni frægir!