BRESKI leikstjórinn Christopher Nolan skipaði sér í röð forvitnilegra leikstjóra með sinni fyrstu mynd, Memento, en hefur í framhaldinu ekki staðið undir þeim væntingum. Nýjasta mynd Nolans, Töfrabragðið, sem byggð er á skáldsögu eftir Christopher Priest, veldur þó sérlegum vonbrigðum en þar bregður Nolan fyrir sig töktum sem tókust vel upp í Memento en snúast upp í eitt stórt klúður í Töfrabragðinu. Um er að ræða "tíðarandamynd" sem á sér stað er iðnvæðingin stendur sem hæst á 19. öld og tækninýjungar og uppfinningar manna á borð við Thomas Edison eru á góðri leið með að umbylta heiminum. Sjónhverfingamenn gera það gott í þessu umhverfi þar sem tækninýjungar og hvers kyns sjónrænar brellur reynast vinsælt afþreyingarefni og fjallar myndin um harða samkeppni tveggja töframanna sem hlutu þjálfun hjá sama meistara. Þetta eru fyrrum vinirnir Robert (Hugh Jackman) og Alfred (Christian Bale) sem starfa báðir sem aðstoðarmenn töframannsins Cutters (Michael Caine). Vinskapur þeirra Roberts og Alfreds breytist í fjandskap þegar hræðilegt slys á sér stað á sviðinu sem Robert kennir Alfred um. Þeir reyna hvor um sig að fullkomna list sjónhverfingamannsins og hefja þar með harða samkeppni sem fer langt út fyrir mörk siðferðis og skynsemi.
Líkt og Memento fjallar Töfrabragðið að mörgu leyti á sjálfsvísandi hátt um þá sjónhverfingu sem kvikmyndalistin er og það hvernig nútímatækni getur hrært upp í veruleikaskynjun okkar. En á meðan þessi tilraun tókst afar vel í Memento, veldur Töfrabragðið engan veginn þeim hugmyndum eða þeirri sögufléttu sem hún leggur upp með. Þess í stað reynast tímaflakk söguþráðarins og rammafrásögnin klunnalegar smíðir og fjölmargar eyður eru skildar eftir fyrir áhorfendur til að klóra sér í kollinum yfir. Christian Bale stendur sig vel sem lágstéttartöframaður og mun betur en Hugh Jackman sem hér fer flatt á hlutverki sínu þegar mest á reynir. Þótt margt sé vel gert í myndinni, og hún fari vel af stað, er handritið hreinlega of mikill gallagripur, enda er það fyrirsjáanlegt og óröklegt á víxl.
Heiða Jóhannsdóttir