Gunnar Kristjánsson fæddist á Seyðisfirði 1945.

Gunnar Kristjánsson fæddist á Seyðisfirði 1945. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1965, kandidatsprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1970, meistaragráðu frá Bostonháskóla 1971 og doktorsprófi í guðfræði og bókmenntum frá Ruhrháskóla 1979. Gunnar var prestur í Vallanesprestakalli 1971 til 1975, prestur á Reynivöllum frá 1979, prófastur í Kjalarnessprófastsdæmi frá 1997. Gunnar er kvæntur Önnu Margréti Höskuldsdóttur kennara og eiga þau einn son.

Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands býður upp á fjölbreytt námskeið á vorönn. Eitt af fyrstu námskeiðum misserisins er Þúsund ára sagan: Saga biskupsstólanna í íslensku samfélagi .

Gunnar Kristjánsson prófastur og doktor í guðfræði og bókmenntum er umsjónarmaður námskeiðsins ásamt Óskari Guðmundssyni rithöfundi: "Námskeiðið fjallar um menningarsögu Íslands séða frá sjónarhóli biskupsstólanna í Skálholti og Hólum," segir Gunnar. "Þetta er mikil saga, því segja má að biskupsstólarnir hafi verið í aðalhlutverki í íslensku samfélagi allt til loka átjándu aldar. Þetta voru miklar menningarmiðstöðvar, þar var stjórnsýsla og búskapur, skólar og prentsmiðjur, og biskupsstólarnir voru aðalsamskiptamiðstöðvar þjóðarinnar við útönd: þangað bárust menningarstraumar frá útlöndum til Íslands og frá Íslandi út í heim."

Á biskupsstólunum var mikill atvinnurekstur: "Þaðan var allri jarðareign stólanna stjórnað – en jarðeignir stólanna skiptu hundruðum þegar mest var – og þar var m.a. miðstöð útgerðar, en Skálholtsstóll stundaði t.d. mikla útgerð á suðurnesjum," segir Gunnar. "Því er óhætt að segja að biskupsstólarnir hafi haft áhrif á sögu allra þátta íslensks þjóðlífs."

Kennt verður átta kvöld og fjallar fyrri helmingur námskeiðsins um sögu biskupsstólanna frá upphafi til siðbótar, en á seinni hluta námskeiðsins verður fjallað um sögu stólanna til loka átjándu aldar þegar biskupsstólarnir voru lagðir niður: "Með siðbótinni verður afgerandi breyting á högum biskupsstólanna, alþjóðleg afskipti kirkjunnar breyta um svip og umsvif Danakonungs aukast. En um leið og eignir og ítök kirkjunnar minnka koma til sögunnar nýir straumar og viðhorf innan kirkjunnar og í þjóðfélaginu, sem jafnframt reyndust fyrstu skrefin í átt til lýðræðis."

Á námskeiðinu er stuðst við ritið Saga Biskupsstólanna sem út kom síðastliðið sumar: "Þessi saga hefur aldrei fyrr verið skrifuð og með þessu mikla ritverki gefst okkur tækifæri til að skoða mikilvægt sjónarhorn í sögu þjóðarinnar," segir Gunnar. "Námskeiðið er gott tækifæri fyrir þá sem vilja dýpka þekkingu sína á íslenskri sögu, svo og fyrir þá sem telja sig hafa minni þekkingu og vilja fá samhengi í þjóðarsöguna."

Námskeiðið Þúsund ára sagan: Saga biskupsstólanna í íslensku samfélagi hefst 1. febrúar og er öllum opið. Kennsla er í fyrirlestra- og umræðuformi. Þátttakendur á námskeiðinu geta keypt bókina Saga biskupsstólanna á sérstöku tilboðsverði.

Skráning og nánari upplýsingar eru á heimasíðunni www.endurmenntun.is.

Athygli er vakin á að mörg stéttarfélög og fyrirtæki taka þátt í kostnaði vegna endurmenntunarnámskeiða.