Bitlaus? Úr Mein Führer.
Bitlaus? Úr Mein Führer.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞÝSKA gamanmyndin Mein Führer: Sannarlega sannasti sannleikurinn um Adolf Hitler ( Mein Führer: Die wirklich wahrste Wahrheit über Adolf Hitler ) verður frumsýnd nk. fimmtudag.

ÞÝSKA gamanmyndin Mein Führer: Sannarlega sannasti sannleikurinn um Adolf Hitler ( Mein Führer: Die wirklich wahrste Wahrheit über Adolf Hitler ) verður frumsýnd nk. fimmtudag. Eins og áður hefur komið fram hefur gerð myndarinnar vakið mikla athygli enda viðfangsefnið löngum verið forboðið í þýskri kvikmyndagerð. En í stað þess að valda usla virðist sem fyrstu viðbrögð gagnrýnenda einkennist frekar af vonbrigðum. Meira að segja stjarna myndarinnar hefur sagt að hún sé bitlaus.

"Ekki mjög fyndin"

Haft er eftir þýska grínleikaranum Helge Schneider, sem leikur Hitler, að myndin sé "ekki mjög fyndin" og jafnvel "leiðinleg". Schneider segir leikstjórann Dani Levy hafa dregið allan þrótt úr myndinni með því að klippa hana upp á nýtt eftir prufusýningar. Segir leikarinn að Levy hafi tekið fókusinn af Hitler og fært hann yfir á leiklistarkennarann og gyðinginn Adolf Gruenbaum, leikinn af Ulrich Muehe.

Levy hefur varið klippinguna og sagt að áhorfendum á prufusýningum hafi ofboðið upprunalega útgáfan og talið, fyrir misskilning, að Hitler væri aðalsöguhetjan en ekki Gruenbaum.

Gagnrýnandi Die Welt segir hins vegar að myndin sé of meinlaus, sem sé sennilega það versta sem hægt sé að segja um grínmynd og að sögn annars gagnrýnanda er heigulsháttur alsráðandi í öllum efnistökum hennar. Segir sá að það sé ekki ólíklegt að "meirihluti áhorfenda muni dotta áður en yfir líkur".