FJÁRMÁLAUMSÝSLU og bókhaldi meðferðarheimilisins Byrgisins er verulega ábótavant.

FJÁRMÁLAUMSÝSLU og bókhaldi meðferðarheimilisins Byrgisins er verulega ábótavant. Tekjur eru vantaldar um tugi milljóna, ekki gerður greinarmunur á einkaútgjöldum og útgjöldum vegna reksturs Byrgisins, auk þess sem útgjöld eru bókuð án þess að fullnægjandi fylgiskjöl séu fyrir hendi.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar hér að lútandi og telur stofnunin eðlilegt að málinu sé vísað til embættis Ríkissaksóknara til meðferðar og að um frekari fjárveitingar verði ekki að ræða úr ríkissjóði til rekstursins vegna þessa.

Í skýrslunni sem unnin er að beiðni félagsmálaráðuneytisins og tekur til ársins 2005 og fyrstu tíu mánaða ársins 2006 kemur fram að innheimtar óbókfærðar tekjur námu 9,6 milljónum króna á árinu 2005 og 12,7 milljónum kr. á árinu 2006 eða 22,3 milljónum króna samanlagt. Bókfærðar tekjur á árinu 2005 eru 42 milljónir og 31,9 milljónir á árinu 2006 eða samanlagt 73,9 milljónir. Ríkisframlag bæði árin nam samanlagt 45,3 milljónum kr. og kemur fram að allar greiðslur opinberra aðila skiluðu sér inn í bókhaldið. Öðru máli gegnir hins vegar um vistgjöld sem innheimt voru af skjólstæðingunum sjálfum og ýmsa styrki. Á árinu 2005 voru þannig bókfærð vistgjöld 9,6 milljónir kr., en innheimt óbókfærð vistgjöld námu 4,9 milljónum til viðbótar samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar. Sama ár voru bókfærðir styrkir 5,9 millj. en innheimtir óbókfærðir styrkir námu þar að auki 4,7 milljónum. Samanlagt er um að ræða 9,6 milljónir kr. í innheimtum óbókfærðum tekjum alls.

Sambærilegir hlutir eru í gangi á fyrstu tíu mánuðum síðasta árs. Þá eru bókfærð vistgjöld 5,1 milljón, en innheimt óbókfærð vistgjöld nema 6,6 miljónum til viðbótar. Bókfærðir styrkir þá eru 8 milljónir, en innheimtir óbókfærðir styrkir þar til viðbótar eru 6,1 milljón. Samanlagt er þar því um að ræða 12,7 milljónir í innheimtar óbókfærðar tekjur á því ári.

Í skýrslunni er meðal annars sagt frá söfnun aðstandenda fyrrverandi skjólstæðings Byrgisins að honum látnum. Könnuðust stjórnendur Byrgisins fyrst ekki við umrædda söfnun, en bankareikningurinn var skráður á Byrgið. "Af bankayfirliti vegna reikningsins, en umræddir aðstandendur höfðu bent fólki á að leggja inn á hann, kemur fram að á tímabilinu frá 14. júní til 31. október 2006 voru lagðar tæpar 122 þús. kr. inn á reikninginn í nafni umrædds skjólstæðings. Jafnóðum og innlegg áttu sér stað voru sömu fjárhæðir millifærðar af forstöðumanni Byrgisins inn á hans persónulega bankareikning. Aðspurður kvaðst hann hafa talið að um aðra söfnun væri að ræða. Tekna vegna þessarar fjársöfnunar er hvergi getið í bókhaldi Byrgisins og ekki hefur verið gerð grein fyrir hvernig þeim var ráðstafað," segir meðal annars í skýrslunni.

Bókfærð og/eða greidd útgjöld Byrgisins námu 47,9 milljónum króna á árinu 2005. Þar af nema greidd útgjöld sem eru félaginu óviðkomandi og telja verður einkaútgjöld að minnsta kosti 12,5 milljónum kr., samkvæmt skýrslunni. Til viðbótar eru 15,7 milljónir kr. bókfærðar en ekki bókunarhæfar. Á árinu 2006 nema bókfærð og/eða greidd útgjöld 38,7 milljónum, þar af nema einkaútgjöld 3,1 milljón og 4,2 milljónir kr. voru bókfærðar en ekki bókunarhæfar.

Fram kemur að tvö kreditkort eru notuð vegna Byrgisins, annað skráð á eignarhaldsfélagið og hitt er persónulegt kort forstöðumanns. 18,3 milljónir kr. voru greiddar vegna úttekta á kortin árið 2005 og eru gild fylgisskjöl ekki til staðar nema fyrir litlum hluta þeirrar fjárhæðar. 6,3 milljónir eru greiddar á fyrstu tíu mánuðum ársins 2006 án þess að færa þær greiðslur á gjaldaliði í bókhaldi og afar fá gild fylgiskjöl liggja til grundvallar þeirri fjárhæð.

Laun vantalin

Rakin eru ýmis dæmi í skýrslunni um vörukaup og framlög, til að mynda hvað varðar 2,2 milljóna kr. færslu til fjölmiðlafélags Byrgisins, Kristilegu fjölmiðlamiðjunnar, en ekki er að finna í bókhaldi gild fylgiskjöl og því óljóst fyrir hvað greitt var fyrir.

"Athygli vekur að launagreiðslur Byrgisins á árinu 2005 námu einungis 5,5 m.kr. samkvæmt ársreikningi, eða rúmlega 460 þús. kr. á mánuði. Alls þáðu fimm einstaklingar greiðslur frá Byrginu á árinu 2005. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að greiðslur til einstaklinga voru í raun mun hærri en samtals höfðu 28,4 m. kr. verið bókaðar á launareikninga. Yfir árið var ýmiss konar útlagður kostnaður, samtals að fjárhæð 15,7 m.kr., færður til lækkunar á greiðslum, oft án fullnægjandi skýringa og bókhaldsgagna," segir einnig.

Þá kemur fram að Byrgið leigir þrjár bifreiðar af eignarhaldsfélagi Byrgisins, sem er í eigu forstöðumanns. Bifreiðarnar eru teknar á rekstrarleigu, tvær Land Rover Discovery-bifreiðar árgerð 2006, til nota fyrir framkvæmdastjóra og aðstoðarframkvæmdastjóra, og ein Renault-sendibifreið árg. 2005, til að sækja vistir fyrir Byrgið. Tekið er fram að bifreið forstöðumanns hafi verið endurnýjuð árlega. Heildarrekstrarkostnaður bifreiða og greiddur akstur til starfsmanna nam samtals 13,3 milljónum kr. á árinu 2005, sem er 28% af bókfærðum heildarrekstrarkostnaði ársins og 9,4 milljónum á árinu 2006, sem er 29% af heildarútgjöldum Byrgisins.