Halldóra Guðlaug Steindórsdóttir fæddist í Ósgerði í Ölfusi 7. febrúar 1927. Hún lést á hjúkrunardeild Dvalarheimilisins Áss í Hveragerði 7. janúar síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Hveragerðiskirkju 13. janúar.

Veturinn leggur hvíta sæng yfir landið kalt og nú hefur amma sofnað svefninum langa. En minningin umvefur hjartað og í loganum birtast bjartar myndir. Notalegt heimilið í Hveragerði fullt af börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum, ilmur af blómum og heitu súkkulaði. Mettir og sælir safnast afkomendurnir saman með hljóðfæri í hönd, píanóið hljómar og ungar raddir syngja með. Andlit ömmu ljómar og hún fylgist stolt með, glettin og brosmild á svip. Úti fyrir næðir norðanbálið en inni býr amma öllum notalegt skjól og hnýtir fjölskylduna saman sterkum böndum. Svo deyr síðasti tónninn og komið að kveðjustund. Amma horfir ákveðin í augun, þrýstir höndina fast og býður hlýjan faðminn. Þú gleymir aldrei þessari stund og tekur minninguna með þér út í svala vetrarnóttina.

Helga, himneska stjarna,

hjartað fagna skal þér,

tær og skær svo sem elskunnar auga

enn þú brosir og heilsar mér.

Englarnir birta þinn boðskap og flytja

bjartasta óð sem á jörðu fékk mál.

Fús vil ég hlusta þá himnarnir syngja,

hjarta mitt opna og sál.

Frelsi, gleði og friður,

fögnuður trúar og von

veitist þeim, sem vilja þér taka,

vinur Kristur, Guðs einkason.

Stjarnan þín leiftrar í heilögu heiði,

himinninn sjálfur er jólagjöf þín,

sál mína lætur þú sjá bæði og finna

sól sem að eilífu skín.

(Sigurbj. Ein.)

Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir.