— Morgunblaðið/Eyþór
Erasmus-áætlunin er framúrskarandi dæmi um hverju evrópsk samvinna getur fengið áorkað, sagði José Manuel Barrosso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í tilefni þess að í ár eru 20 ár liðin frá því að áætluninni var hleypt af stokkunum.

Erasmus-áætlunin er framúrskarandi dæmi um hverju evrópsk samvinna getur fengið áorkað, sagði José Manuel Barrosso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í tilefni þess að í ár eru 20 ár liðin frá því að áætluninni var hleypt af stokkunum. Það var árið 1987 sem Erasmus-áætlunin, sem heitir í höfuðið á hollenska heimspekingnum frá Rotterdam (1469–1536), var sett á laggirnar en markmið hennar er að auka samstarf evrópskra háskóla, hreyfanleika háskólanema og kennara og Evrópuvitund. Í áætluninni felst að bæði stúdentar og kennarar geta sótt um styrk til þess að stunda nám eða kennslu í öðrum háskóla innan Evrópu í eitt námsmisseri en samstarfsverkefni háskóla í álfunni geta einnig hlotið styrki.

Erasmus-áætlunin hefur verið mikilvæg fyrir nútímavæðingu háskólastigsins í Evrópu. Hún hefur þó ekki aðeins snúist um menntun eins og ætlunin var í upphafi. Hún hefur einnig gefið evrópskum háskólastúdentum tækifæri til þess flytjast tímabundið búferlum til annars lands og kynnast menningu og sögu þess betur en annars.

Ján Figel, fulltrúi menntamála í framkvæmdastjórninni, sagði áætlunina hafa gegnt og muni áfram gegna lykilhlutverki í nokkurs konar Evrópuvæðingu Evrópusambandsins á háskólastigi. "Þessir mánuðir sem stúdentar eyða erlendis eru vendipunktur í lífi þúsunda þeirra: 80% af þátttakendum eru þeir fyrstu í fjölskyldunni sinni sem taka hluta af námi sínu erlendis."

Vel heppnuð samvinna

Árið 1987 tóku 3.244 stúdentar þátt í Erasmus-áætluninni en árið 2005 voru þátttakendur 144.032 eða nær 1% af háskólastúdentum í Evrópu. Alls hafa 1,5 milljónir stúdenta tekið þátt.

Áætlað er að á næstu fimm árum verði fjölgun skiptinema jafnmikil og á síðustu 20 árum og nái þá 3 milljónum stúdenta árið 2012. Konur hafa hingað til verið í meirihluta Erasmus-þátttakenda eða um 60%.

Nokkur gagnrýni hefur komið fram á áætlunina en hún snýr einkum að því að styrkirnir séu ekki nógu háir til framfærslu. Figel gerði þetta að umtalsefni og sagði þessa staðreynd vera eina af áskorununum sem takast þyrfti á við. "Erasmus-styrkirnir eru of lágir til þess að gera stúdentum, sem ekki hafa annað fjárhagslegt bakland, kleift að nýta þennan möguleika og njóta ágóðans. Framkvæmdastjórnin er líka að beina því til ríkjanna sérstaklega að þau auki styrki sína til Erasmus-áætlunarinnar, svo að enn fleiri geti notið hennar, sérstaklega þeir sem hafa ekki fjárhagslega burði til þess."

Ísland fékk aðgang að menntaáætlun Evrópusambandsins árið 1992 og hefur fjöldi Íslendinga sem tekur hluta af námi sínu við háskóla í Evrópu farið stigvaxandi. Ef aðeins eru teknir stúdentar frá Háskóla Íslands þá fóru veturinn 1992–3 þaðan 56 til náms í evrópskum háskólum en hingað komu 23. Frá árinu 1999 hafa fleiri erlendir stúdentar komið til náms við Háskóla Íslands á vegum Erasmus-áætlunarinnar en farið. Veturinn 2005–2006 stunduðu 320 Erasmus-stúdentar nám við Háskóla Íslands en 225 fóru utan.

Á morgun, miðvikudaginn 17. janúar frá klukkan 15–17.30 verður Alþjóðadagur Háskóla Íslands haldinn í Odda, stofu 101. Þar verða á fundi kynntir erlendir samstarfsskólar Háskólans þar sem stúdentar geta tekið hluta af námi sínu sem skiptistúdentar. Einnig munu fyrrverandi skiptistúdentar segja frá reynslu sinni erlendis og sömuleiðis erlendir nemar við Háskólann segja frá sínum heimaskóla og veru sinni hér á landi.