Jón Sigurðsson
Jón Sigurðsson
Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, rifjaði það upp í ræðu sinni á flokksþingi í fyrradag að framsóknarmenn hefðu haft forgöngu um nýja löggjöf um fjármál stjórnmálaflokkanna.

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, rifjaði það upp í ræðu sinni á flokksþingi í fyrradag að framsóknarmenn hefðu haft forgöngu um nýja löggjöf um fjármál stjórnmálaflokkanna. "Hún gerbreytir öllum aðstæðum í kosningastarfi og setur skorður við umsvifum, til dæmis í auglýsingum," sagði Jón. "En nýju lögin losa lýðræðið undan ýmsum ytri áhrifum og það skiptir mestu. Ég get lýst því yfir að við erum reiðubúin til viðræðna við aðra stjórnmálaflokka um miklar takmarkanir á útgjöldum og auglýsingum í kosningabaráttunni fram undan og við lýsum eftir afstöðu annarra flokka í þessu máli."

Fróðlegt verður að sjá viðbrögð forystumanna annarra flokka við þessu tilboði Jóns Sigurðssonar. Oft hefur verið reynt að ná samkomulagi á milli stjórnmálaflokkanna fyrir kosningar um að takmarka kostnað við auglýsingar en iðulega mistekizt.

Auglýsingastjórnmálin, sem þróazt hafa hér á undanförnum áratugum, eru þreytandi og lýðræðinu lítt til framdráttar. Stefna flokka og boðskapur foringjanna týnist iðulega í innantómum umbúðum og slagorðum. Það virðist oft skipta meira máli hvernig dragt eða bindi fólk hefur valið sér en hvað það hefur að segja.

En nú eru nýir tímar og ný löggjöf sníður flokkunum þrengri stakk. Sumir hafa spáð því að í komandi kosningabaráttu muni það þýða að minna verði eytt í auglýsingar, en baráttan færist út á bloggið. Það væri ágæt þróun. Bloggið er málefnavettvangur, þar sem fólk kemur yfirleitt til dyra eins og það er klætt.