Markaði tímamót Hálf öld er liðin frá því að heilsuverndarstöðin í Reykjavík var vígð. Á þeim tíma hafa margar kynslóðir Reykvíkinga leitað í þetta virðulega hús. Nú stendur hins vegar til að því verði breytt í hótel.
Markaði tímamót Hálf öld er liðin frá því að heilsuverndarstöðin í Reykjavík var vígð. Á þeim tíma hafa margar kynslóðir Reykvíkinga leitað í þetta virðulega hús. Nú stendur hins vegar til að því verði breytt í hótel. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Heilsuverndarstöð Reykjavíkur var vígð fyrir 50 árum og breytti miklu í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Bergljót Líndal fjallar um sögu Heilsuverndarstöðvarinnar og þýðingu hennar.

Hinn 2. mars árið 1957 var hátíð í bæ, verið var að fagna vígslu Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur, glæsilegrar byggingar á horni Egilsgötu og Barónsstígs, sem sett hefur svip á borgina og allir þekkja. Þetta var mikilvægur áfangi í heilbrigðisþjónustu, ekki aðeins í Reykjavík heldur alls landsins og verðugur minnisvarði um frábæra og framsýna heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Hún var reist af ótrúlegri hugsjón, þrátt fyrir ekki alltof mikinn skilning á forvörnum, þegar sjúkdómar, sem hrjáðu landsmenn, voru aðalviðfangsefni heilbrigðisþjónustunnar.

Til hátíðarinnar mættu m.a. nokkrir æðstu embættismenn landsins, Hannibal Valdimarsson félagsmálaráðherra, Gunnar Thoroddsen borgarstjóri, Sigurður Sigurðsson berklayfirlæknir og formaður stjórnar Heilsuverndarstöðvarinnar, Sigríður Eiríksdóttir formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Sigurður Sigurðsson stjórnaði vígsluathöfninni, sem hófst með því að gestum var boðið til kaffidrykkju, því næst voru fluttar ræður og að síðustu gafst gestum kostur á að skoða bygginguna.

Tillögur Vilmundar Jónssonar

Það var árið 1934, sem Vilmundur Jónsson landlæknir, sá mikli hugsjónamaður, kom fyrstur með tillögur um heilsuverndarstöð eftir bestu erlendum fyrirmyndum og átti hún helst að vera tiltölulega fullkomnari miðað við fólksfjölda. Ekkert gerðist þó næstu 10 árin þótt vel væri tekið í hugmyndir Vilmundar. Árið 1946 var samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur að kjósa fimm manna nefnd til að gera tillögur um stærð og fyrirkomulag fullkominnar heilsuverndarstöðvar í Reykjavík. Formaður nefndarinnar var eins og áður segir, Sigurður Sigurðsson berklayfirlæknir, síðar landlæknir, Einar Sveinsson var ráðinn arkitekt að húsinu ásamt Gunnari Ólafssyni arkitekt. Eigendur voru Reykjavíkurborg sem átti 60% og ríki sem átti 40%.

Fyrsta deildin, barnadeild, flutti inn 4. desember 1953, síðan mæðradeild, heimahjúkrun, berklavarnadeild, húð- og kynsjúkdómadeild og áfengisvarnadeild, þá var húsið enn í smíðum, en formleg vígsla fór síðan fram árið 1957 eins og áður segir.

Langþráðu takmarki var náð

Heilsuverndarstöðin starfaði sem ein heild með margþættu starfi, sem allt stefnir að sama marki, þ.e. aukinni heilbrigði og hreysti bæjarbúa. Glæsilegur árangur varð af starfsemi Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur eins og dæmin sanna. Þegar í upphafi var opnað útibú í Langholtsskóla og síðar í Árbæ og Breiðholti

En tímarnir breytast og með lögum um heilbrigðisþjónustu, sem tóku gildi 1. janúar 1974, er kveðið á um heilsugæslustöðvar, sem eiga að veita alhliða heilbrigðisþjónustu í hverfinu þar sem fólkið býr og þar með heilsuvernd. Þá þegar var farið að ræða um hvert yrði hlutverk Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur. Niðurstaðan varð sú að þar yrði miðstöð heilsuverndar á landsvísu. Það var verðugt hlutverk. Miðstöð heimahjúkrunar var komið á laggirnar, hún flutti að vísu úr Heilsuverndarstöðinni; Miðstöð mæðraverndar, Miðstöð heilsuverndar barna, sem sinna sérhæfðari þjónustu, hafi heilsugæslustöðvarnar ekki tök á því, auk þess að vera aðsetur stjórnsýslu heilsugæslunnar. Heilsuverndarstöðin skyldi jafnframt vera bakhjarl og leiðbeinandi fyrir heilsugæslu alls landsins, móta stefnu, gefa út fræðsluefni, halda ráðstefnur o.s.frv., með öðrum orðum vera móðurskip.

Húsið hentaði afar vel fyrir þessa breyttu starfsemi, starfsfólki leið þar vel, vildi vera þar og það þekkt sem Heilsuverndarstöðin.

"Heilsuverndarstöð Reykjavíkur var frá upphafi stærsta heilsuverndarstöð landsins og allt frá því að lögð voru fram fyrstu drög að byggingu hennar var til þess ætlast, að hún gegndi forystuhlutverki í heilsuverndarmálum landsmanna." Þetta segir í bréfi Vilmundar Jónssonar til bæjarstjórnar árið 1934 og var áréttað í vígsluræðu formanns Heilsuverndarstöðvarinnar árið 1957.

Hvað gerðist ?

Hinn 31. maí 2005 upplýsti borgarstjóri í fjölmiðlum, að ákveðið hefði verið að selja Heilsuverndarstöðina. Það hafði tekið 31 ár að komast að þessari niðurstöðu, kom hún þó starfsmönnum í opna skjöldu. Ástæðan var sú að samkomulag náðist ekki milli eigenda, þ.e. ríkis og Reykjavíkurborgar, um kaupin sem varð til þess að hún var auglýst til sölu. Ríkið taldi sig ekki geta keppt við hæsta tilboðið, en svo virðist sem það hafi verið eina markmið Reykjavíkurborgar. Aðeins Frjálslyndi flokkurinn lagðist gegn sölunni, en þrátt fyrir ötula baráttu Ólafs Magnússonar borgarfulltrúa flokksins var hann ofurliði borinn.

Hugsjónir fara fyrir lítið, þegar peningar eru annars vegar. Ríkið rekur heilsugæsluna og hefði því verið eðlilegt að það hefði keypt þessi 60% af borginni fyrir þá starfsemi.

Húsið er friðað en svo ótrúlegt sem það er fylgdu engar kvaðir sölunni um hvers konar starfsemi mætti fara þar fram, hefði þó mátt gera þá kröfu, að þar færi fram menningarleg og virt starfsemi sem væri samboðin Heilsuverndarstöðinni, peningar voru hins vegar leiðarljósið. Nú hefur komið í ljós, að allt bendir til að þetta brambolt verði dýrara þegar upp er staðið, en hefði starfsemin fengið að vera kyrr í sínu eigin húsi. Til hvers var þetta óheillaverk þá unnið?

Það kom á daginn að kaupandinn virtist ekki geta nýtt hana og var hún hvað eftir annað auglýst til sölu. Nú hefur verið upplýst, að hún var seld í janúar s.l. en af einhverjum ástæðum var það ekki gert opinbert fyrr en 20. febrúar s.l. Hinn nýi eigandi ætlar sér að reka þar hótel samkvæmt fréttum. Það er kannski ekki verra en hvað annað úr því sem komið er. Þótt engin kvöð hafi fylgt sölunni er hinn nýi eigandi bundinn því að húsið er friðað og vonandi tekst vel til. Þetta er sorgarsaga, enginn áhugi eða metnaður gagnvart húsinu sjálfu, þeirri starfsemi sem þar fór fram og sögulegum verðmætum. Þessi óskiljanlega ákvörðun að selja Heilsuverndarstöðina hefur ekki fengið þá umræðu sem henni ber, enginn hefur þó mælt sölunni bót, hvorki lærðir né leikir. Borgarstjórn og ráðuneyti – fjármála- og heilbrigðismála – vísa hvert á annað, gefa loðin svör, þegar óskað er skýringa, ef á annað borð er svarað.

Hvernig er 50 ára afmælis Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur minnst? Hefði ekki verið við hæfi að henni hefði verið sómi sýndur, hún fengi gjafir, sem styrkt hefðu starfsemina, flaggað í heila stöng, skrifuð vegleg afmælisgrein, með öðrum orðum hátíð í bæ?

Lengi hef ég haft áhuga á að skrifuð verði saga þessarar merku stofnunar, hef raunar þegar hafist handa ásamt Erlu Dórisi Halldórsdóttur sagnfræðingi. Mér er því sönn ánægja að upplýsa, að Borgarstjórn Reykjavíkur og Heilbrigðisráðuneytið hafa ákveðið að styrkja þessa söguritun með fjárframlögum.

Þótt ég hafi verið afar ósátt við ákvarðanir þeirra um sölu Heilsuverndarstöðvarinnar met ég mikils þetta framlag þeirra, sem sýnir að þeim er annt um þessa stofnun þrátt fyrir allt og þar með er 50 ára afmælisins minnst með veglegum hætti. Fyrir það vil ég þakka.

Ég veit að þrátt fyrir þetta er heilsugæslan í höndum frábærra starfsmanna og sami metnaður og áhugi þeirra mun móta starfsemina í framtíðinni sem hingað til. Ég óska því heilsugæslunni allra heilla á þessum tímamótum.

Höfundur er fyrrverandi hjúkrunarforstjóri Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur.