Víkverji fer að heita má daglega um Sæbrautina, þar sem miklum gatnaframkvæmdum er nú lokið. En í hvert sinn sem leiðin liggur austur frá Laugarnesveginum furðar Víkverji sig á því hversu óslétt hægri akreinin er.

Víkverji fer að heita má daglega um Sæbrautina, þar sem miklum gatnaframkvæmdum er nú lokið. En í hvert sinn sem leiðin liggur austur frá Laugarnesveginum furðar Víkverji sig á því hversu óslétt hægri akreinin er. Það eru einhverjir flekar í henni sem framkvæmdaaðilum hefur mistekizt að ganga þannig frá að þeir falli sléttir við götuna. Hvernig má það vera nú á tímum að þeim sem standa að gatnaframkvæmdum skuli vera fyrirmunað að skila af sér sléttum götum? Og hvernig stendur á því að sá sem verkið kaupir skuli láta þennan frágang góðan heita? Þetta er ekki forsvaranlegt gagnvart Reykvíkingum. Víkverji vonar innilega að þessu verði kippt í liðinn, því þetta er ekki einasta lélegur vitnisburður um verkkunnáttu nútildags, heldur fer þetta fyrst og fremst illa með bæði bíl og bílstjóra og farþega hans.

Fyrst Víkverji er nú setztur undir stýri í þessum pistli skal sagt frá ökuferð, þar sem Víkverji ók erlendan kunningja sinn um höfuðborgarsvæðið. Víkverji verður að segja það eins og er að hann hafði lúmskt gaman af þessari ökuferð. Þótt hann búi í borginni liggja leiðir hans eftir fábreyttum slóðum og nýju hverfin komu honum á óvart; það er eiginlega með ólíkindum hvað byggðin þenst stöðugt út.

En það sem situr í Víkverja eftir þessa ökuferð eru ummæli, sem farþeginn lét falla undir lokin. Hann sagði sem svo: Þið Íslendingar notið stefnuljós öðru vísi en allir aðrir. Flestir nota þau til að gefa til kynna hvert þeir ætla að beygja innan skamms, en þið notið þau til þess að staðfesta að þið hafið þegar beygt til hægri eða vinstri! Víkverji varð hvumsa við og kom sér og löndum sínum til varnar; þetta væri alls ekki einhlítt og ekki vissi Víkverji til annars en að Íslendingum gengi vel í umferðinni erlendis. Farþeginn brosti bara og síðasta spölinn sá Víkverji að hann hafði margt til síns máls; eiginlega alltof margt!