Skýringar Vera kann að unglingar sem leita til SBD reyni að dylja ölvun.
Skýringar Vera kann að unglingar sem leita til SBD reyni að dylja ölvun. — Morgunblaðið/ÞÖK
Eftir Hjálmar Jónsson hjalmar@mbl.is VÍSBENDINGAR eru um að skráning slysa- og bráðadeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss í Fossvogi (SBD) á ölvunarástandi unglinga sem þangað leita sé ekki með fullnægjandi hætti.

Eftir Hjálmar Jónsson

hjalmar@mbl.is

VÍSBENDINGAR eru um að skráning slysa- og bráðadeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss í Fossvogi (SBD) á ölvunarástandi unglinga sem þangað leita sé ekki með fullnægjandi hætti. Hins vegar virðist allgóð samsvörun vera í þessum efnum hvað varðar komur unglinga á SBD vegna slysa eða ofbeldis.

Þetta kemur í ljós þegar borin er saman opinber skráning SBD á komum þangað þar sem áfengisneysla unglinga kemur við sögu og komum vegna slysa eða ofbeldis annars vegar og hins vegar svör unglinganna sjálfra í evrópsku vímuefnarannsókninni sem lögð hefur verið þrívegis fyrir alla unglinga í 10. bekk grunnskóla.

Um þetta er fjallað í fræðigrein í nýútkomnu tölublaði af Læknablaðinu, eftir Þórodd Bjarnason félagsfræðing og fleiri. Þar kemur fram að samkvæmt skráningu SBD komu einungis 0,2% þessara árganga árið 2002 á deildina undir áhrifum áfengis, en 9,3% unglinga til viðbótar segjast hins vegar hafa lent í slíku án þess að það sé skráð hjá SBD. "Því virðist sem 470–511 einstaklingar á þessum aldri telji áfengi hafa átt þátt í því að þeir leituðu til slysa- og bráðamóttöku á árinu 2002 en aðeins átta þeirra eru skráðir hjá SBD."

Fram kemur að ýmsar skýringar kunni að vera á þessum misbresti í skráningu, svo sem að unglingar reyni að dylja ölvunina og að starfsfólk sé tregt til að skrá slíkt nema fullvíst sé að um ölvun sé að ræða, en það sé sjaldnast staðfest með blóðprufu. Þá kunni einhverjir unglinganna að leita til spítalans daginn eftir áverkann þegar ummerki áfengisneyslunnar séu horfin og stundum sé erfitt að sýna fram á orsakasamhengi milli ölvunar og slyss. Mikilvægt sé hins vegar frá lýðheilsu- og faraldursfræðilegu sjónarmiði að skráningar sjúkrahúsa á þessum þáttum séu áreiðanlegar og réttmætar.