[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Guðmundur

Magnússon "Balli" fæddist 27. júlí 1923. Hann lést 13. janúar síðastliðinn.

Hann var sonur hjónanna Sigríðar Guðmundsdóttur og Magnúsar Finnssonar, bónda að Stapaseli í Borgarfirði.

Guðmundur var fjórði í röð tíu systkina. Eftir lifa fimm systur.

Sonur Guðmundur er Gunnar, hann á þrjú börn.

Útför Guðmundar var gerð í kyrrþey.

Minn elskaði bróðir Balli lést 13. janúar síðastliðinn.

Hann, "The Balli", var alveg sérstakur, þegar ég minnist hans kemur hlátur í huga minn yfir því lífi sem hann lifði. Hann var aðeins 17 ára þegar hann fór á sjóinn og var það að mestu hans ævistarf, fyrir utan tíma sem hann starfaði við bílaleiguna Geysi og einnig rak hann Hótel Búðir tvö sumur, lauk hann svo starfsævinni við sjómennsku. Balli var búinn að heimsækja flest lönd heimsins og óteljandi voru borgirnar sem hann var búinn að skoða. Ég minnist þess að eitt sinn hringdi síminn hjá okkur Mickey og loftskeytastöðin bað um viðtal við Erlu, þá var það Balli: Halló elskan, farðu út á svalir og veifaðu rauðum klút til mín, við erum að sigla fram hjá Miami á leið til New Orleans og strákarnir trúa mér ekki, já, já, nú sé ég klútinn.

Balli kom oft í heimsókn til okkar Mickey á Miami og við heimsóttum Balla.

Eitt sinn fór hann með Mickey til Þingvalla og sýndi honum Drekkingarhyl, söguna sem hann sagði Mickey um hylinn fékk ég aldrei að heyra.

Aftur hringdi síminn. Halló Erla, hvar heldur þú að ég sé núna? Ég hafði ekki hugmynd um það en hann sagðist hafa farið til Taílands og skroppið þaðan til Singapore. Getur þú komið, spurði hann, en það gat ég ekki. Svona var minn elskaði bróðir Balli.

Oft er við Mickey komum til Íslands var Balli úti á velli að taka á móti okkur og þá var nú glatt á hjalla þar sem hann bjó á Laugarnesveginum, jafnvel spilað svo hátt á fóninn að strætó hægði á sér þegar hann fór fram hjá, svona er hægt að halda endalaust áfram. Mottó Balla var að gera það sem hann langaði til, hann var náttúrubarn ferðaðist mikið til Taílands og þangað austur eftir síðustu 20–25 árin.

Fjölskyldutengslin við Balla voru mikil. Balli átti í mörg ár sumarbústað í Hvassahrauni "Búsó". Það var hans líf og ánægja að dytta þar að ýmsu. Á sumrin var þar mikið líf og fjör. Þetta er bara brot úr ævi hans bróður míns sem ég mun sakna en minnast alltaf með einhverju sem mun láta mig fara að brosa. Hann bróðir minn var alveg sérstakur, alltaf að finna upp eitthvað nýtt því hann gat ekki verið aðgerðalaus. Hann var mjög listrænn og gerði bara það sem honum datt í hug. Hann elskaði tónlist og var Maria Callas í uppáhaldi hjá honum ásamt fleiri stórsöngvurum. Svona var "The Balli".

Hann heimsótti mörg óperuhús víðsvegar um heiminn Scala, La Opera, Lincoln Center, óperuna í Sidney, Buenos Aires o.fl. o.fl. Balli var sannur víkingur, en af öllum þessum löndum sem hann heimsótti, þótti honum Ísland fallegast, og það var heim, eins og hjá okkur öllum sem förum í burtu. Það var mikið gaman að hlusta á Balla segja frá menningu hinna ýmsu landa sem hann heimsótti.

Nú ert þú farinn í síðustu ferðina, farðu vel, minn hjartkæri bróðir. Með ást og trega minnist ég þín og mun muna þig og brosa að einhverju sem kemur í huga minn, þú verður aldrei gleymdur.

"Fare well, until we meet again"

Þín systir

Erla Ross, Miami.