Ummæli yfirmanns danska heraflans, Hans Jesper Helsø hershöfðingja, benda til að stefna ríkisstjórnarinnar í varnarmálum eftir brotthvarf varnarliðs Bandaríkjamanna héðan sé farin að bera árangur.

Ummæli yfirmanns danska heraflans, Hans Jesper Helsø hershöfðingja, benda til að stefna ríkisstjórnarinnar í varnarmálum eftir brotthvarf varnarliðs Bandaríkjamanna héðan sé farin að bera árangur.

Leitað hefur verið eftir tvíhliða viðræðum við Danmörku, Noreg, Bretland og Kanada um aukið samstarf í öryggis- og varnarmálum á Norður-Atlantshafi. Viðræður við Dani og Norðmenn eru lengst komnar og Helsø upplýsir í Morgunblaðinu á föstudag að viðræður embættismanna séu "svo gott sem búnar". Nú þurfi að útfæra samning, sem setji samstarfinu ramma og hann eigi að geta verið tilbúinn eftir tvo mánuði.

Aukið samstarf Dana og Íslendinga á sviði öryggis- og varnarmála mun, ef dæma má af orðum hershöfðingjans, einkum felast í því annars vegar að danskar herflugvélar hafi hér viðdvöl af og til og taki þátt í æfingum og hins vegar að ríkin muni skiptast á upplýsingum ásamt öðrum ríkjum á svæðinu, sem eiga hagsmuna að gæta.

Fyrir Ísland felst þýðing samstarfs um heræfingar fyrst og fremst í því að sýna NATO-flaggið hér á landi ef svo má segja; það undirstrikar að bandamenn okkar hafa bæði getu og vilja til að styrkja loftvarnir Íslands ef þörf krefur. Eins og Hans Jesper Helsø víkur að í Morgunblaðinu í gær fá Danir það m.a. út úr samstarfinu að hér á landi eru aðstæður til æfingaflugs góðar.

Verði kominn á samningur milli Íslands og Danmerkur um aukið samstarf í varnarmálum innan tveggja mánaða er það skjótari árangur en margir höfðu gert ráð fyrir. Hins vegar ber á það að líta að samstarf ríkjanna á sviði landhelgisgæzlu, fiskveiðieftirlits, leitar og björgunar er nú þegar mikið og góður grunnur til að byggja á.

Ætla verður að fljótlega geti náðst sambærilegir samningar við Norðmenn. Þeir hafa lýst yfir vilja til að taka þátt í reglubundnum æfingum orrustuflugvéla og til að útvíkka eftirlitssvæði Orion-eftirlitsflugvéla sinna þannig að það nái lengra í átt til Íslands, auk þess að skiptast á upplýsingum og starfa saman að leitar- og björgunarmálum.

Þessi tvö samstarfsríki okkar, Danmörk og Noregur, eru þau sem við erum tengd hvað traustustum böndum og jafnframt þau sem mestra hagsmuna eiga að gæta á svæðinu auk okkar. Það er því eðlilegt að samstarfið við þau verði nánast.

Enn er óvíst hvað mun koma út úr viðræðum við Bretland og Kanada. Ekki hefur verið haldinn fundur með Kanadamönnum, en hann stendur fyrir dyrum í næstu viku. Þó verður að ætla, eins og danski hershöfðinginn bendir á að þessi ríki muni a.m.k. sjá sér hag í auknum skiptum á upplýsingum um skipaferðir og aðra umferð á Norður-Atlantshafi.

Athyglisvert er að ummæli Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra um mýkri ásýnd Íslenzku friðargæzlunnar skuli hafa vakið sérstaka athygli yfirmanns danska heraflans. Hann hvatti til þess á fundi sínum með ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins á fimmtudag að Ísland og Danmörk leituðu leiða til að löndin gætu bætt hvort annað upp í friðargæzluverkefnum; Danmörk lagt til "hörðu" þættina, þ.e. hermenn og vopn, en Ísland þá "mjúku", lækna, hjúkrunarfólk eða aðra borgaralega sérfræðinga.

Þetta er svipuð afstaða og komið hefur fram hjá Norðmönnum. Svo virðist því sem bandalagsríki okkar í NATO kunni vel að meta að Íslendingar einbeiti sér að því, sem þeir kunna, þ.e. borgaralegum verkefnum í tengslum við friðargæzlu, en láti öðrum hernaðarþáttinn eftir.

Framlag Íslands til friðargæzlu verður að sjálfsögðu að skoða í samhengi við viðleitni stjórnvalda til að tryggja varnir og öryggi landsins. Ef við erum reiðubúin að leggja okkar af mörkum til sameiginlegra verkefna Atlantshafsbandalagsins og annarra vestrænna ríkja við friðargæzlu eru samstarfsríki okkar fremur reiðubúin að leggja okkur lið á heimaslóðum.