ARNA Schram, formaður Blaðamannafélags Íslands, gagnrýnir málatilbúnað Þorgerðar K.

ARNA Schram, formaður Blaðamannafélags Íslands, gagnrýnir málatilbúnað Þorgerðar K. Gunnarsdóttur menntamálaráðherra vegna skipunar í sérfræðinganefnd NJC, Norræna blaðamannaháskólans, um að það gæti leitt til hagsmunaáreksturs ef nefndarfulltrúi væri starfsmaður fjölmiðladeildar háskóla, nú þegar einn nefndarmanna, Ólafur Þ. Stephensen, er einn þriggja stjórnarmanna í Meistaranámsdeild í blaða- og fréttamennsku við HÍ. Er haft eftir Örnu á vef BÍ að ráðherra hljóti að krefjast þess að Ólafur segi sig úr stjórn námsins í fjölmiðlafræði við HÍ vilji ráðherra vera samkvæmur sjálfum sér.

Blaðamannafélagið lagði til að Birgir Guðmundsson lektor við Háskólann á Akureyri og Svanborg Sigmarsdóttir blaðamaður yrðu aðal- og varafulltrúar í NJC en því hafnaði ráðherra.

Ekki náðist í menntamálaráðherra vegna málsins í gær.