HÉRAÐSDÓMUR Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann í þriggja mánaða fangelsi fyrir líkamsárás gegn þáverandi sambýliskonu sinni í Reykjahverfi og jafnframt dæmt hann til að greiða henni 133 þúsund kr. í bætur.

HÉRAÐSDÓMUR Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann í þriggja mánaða fangelsi fyrir líkamsárás gegn þáverandi sambýliskonu sinni í Reykjahverfi og jafnframt dæmt hann til að greiða henni 133 þúsund kr. í bætur. Var bótakrafa hennar tekin til greina að fullu.

Maðurinn viðurkenndi að hafa snúið upp á handlegg konunnar svo hún tognaði, auk þess sem hann sparkaði í hana. Þá framdi hann húsbrot með því að ryðjast tvívegis inn í íbúð fyrrverandi eiginkonu sinnar á Húsavík þar sem hann neitaði að fara þótt konan skoraði á hann að gera það. Í seinna skiptið dvaldi hann þar þangað til lögreglan kom á staðinn og fjarlægði hann. Varðar slík háttsemi við hegningarlög þar sem hámarksrefsing er eins árs fangelsi.

Játning mannsins þótti í samræmi við gögn málsins og voru brotin talin nægjanlega sönnuð að mati dómsins.

Ekki þótti hægt að skilorðsbinda refsingu mannsins en fram kemur í dómi að hann hafi verið dæmdur til sex mánaða fangelsisrefsingar fyrir hegningar- og vopnalagabrot árið 1991. Ennfremur hefur hann verið dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot.

Málið var dæmt 28. febrúar sl. af Frey Ófeigssyni dómstjóra. Verjandi ákærða var Örlygur Hnefill Jónsson hrl. og sækjandi Svavar Pálsson, fulltrúi lögreglustjórans á Húsavík.