LANDSLIÐSMENNIRNIR í handknattleik, Ásgeir Örn Hallgrímsson og Snorri Steinn Guðjónsson, hafa skrifað undir samning við danska úrvalsdeildarliðið GOG frá Svendborg.

LANDSLIÐSMENNIRNIR í handknattleik, Ásgeir Örn Hallgrímsson og Snorri Steinn Guðjónsson, hafa skrifað undir samning við danska úrvalsdeildarliðið GOG frá Svendborg. Þeir ganga til liðs við félagið í sumar og er samningur þeirra til tveggja ára

"Ég valdi GOG fyrst og fremst vegna þess að ég sé fram á að fá að leika í 60 mínútur í hverjum leik sem er talsvert annað en ég bý nú við í Þýskalandi," sagði Ásgeir Örn í samtali við Morgunblaðið en hann er nú hjá Lemgo í Þýskalandi.

GOG hefur um langt árabil verið meðal fremstu handknattleiksliða Danmerkur og varð m.a. meistari á síðasta vori.

"Ég hefði aldrei skrifað undir hjá GOG ef ég liti á það sem skref aftur á bak á ferli mínum að fara til félagsins. Það er alveg ljóst að ég er að fara til betra liðs en ég er hjá núna. Hins vegar er danska deildin ekki eins sterk og sú þýska en ég tel mig betur settan hjá toppliði í Danmörku en hjá botnliði í Þýskalandi," sagði Snorri.