Verðlækkun Fjármálaráðherra segir að stjórnvöld muni skoða leiðir til að auka samkeppni skili lækkun virðisaukaskatts og afnám vörugjalda sér ekki til neytenda.
Verðlækkun Fjármálaráðherra segir að stjórnvöld muni skoða leiðir til að auka samkeppni skili lækkun virðisaukaskatts og afnám vörugjalda sér ekki til neytenda. — Morgunblaðið/Ásdís
» Skilaboðin eru þau að það er hægt að lifa þetta af. Thelma Ásdísardóttir eftir undirritun samnings við ELF Films, kvikmyndafyrirtæki í eigu þriggja íslenskra systra í Los Angeles.

» Skilaboðin eru þau að það er hægt að lifa þetta af.

Thelma Ásdísardóttir eftir undirritun samnings við ELF Films, kvikmyndafyrirtæki í eigu þriggja íslenskra systra í Los Angeles. Samningurinn kveður á um rétt til að gera kvikmynd eftir bókinni "Myndin af pabba" en þar birtist frásögn af kynferðislegu ofbeldi sem Thelma og systur hennar urðu fyrir af hálfu föður síns og fleiri.

» Maður kaupir það sem þarf og vonar að það verði ódýrara.

Íris Bjarnadóttir, viðskiptavinur í verslun Krónunnar við Bíldshöfða, spurð hvort hún sé vongóð um að lækkun á virðisaukaskatti og vörugjöldum skili sér til neytenda.

» Matur hefur hækkað rosalega mikið í verði frá því í desember og þar til núna.

Daníela Gunnarsdóttir, viðskiptavinur í Hagkaupum, spurð um það sama.

» Spennan var magnþrungin á lokasprettinum.

Jóhann Á. Hansen listmunasali eftir að hafa keypt "Hvítasunnundag", málverk eftir Jóhannes Kjarval á uppboði í Kaupmanahöfn. Kaupverðið var 15,2 milljónir króna en Jóhann Ágúst keypti verkið fyrir hönd ónefnds Íslendings.

» Þess vegna er samfélagið ekki nógu heppilega innréttað fyrir konur.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í ræðu á aðalfundi Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar um liðna helgi.

» Þetta er einhver magnaðasta samkoma sem ég hef verið á.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, eftir landsfund flokksins um liðna helgi.

» Ég held að við ættum nú að líta okkur aðeins nær og ekki aðeins tala um hlutina heldur líka framkvæma þá.

Magnús Bergsson á landsfundi VG eftir að hafa borið upp þá spurningu hversu margir þátttakenda hefðu gengið, hjólað eða komið með strætisvagni til landsfundarins á Grand Hótel í Reykjavík. Fátt varð um svör, Magnús var sá eini sem komið hafði á hjóli.

» Þetta er nokkuð hár styrkur.

Júlíus Friðriksson talmeinafræðingur í samtali við Morgunblaðið. Júlíus hefur fengið um 113 milljónir króna í styrk frá Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna, NIH, til rannsókna á bata eftir heilablóðfall.

» Það eru mikil sóknarfæri í að opna sendiráð hér.

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra er hún opnaði sendiráð Íslands í Suður-Afríku.

» Ég tel alveg raunhæft að spara megi 15% af orkunni án þess að það komi nokkuð niður á lífsgæðum eða framleiðslu.

Sigurður Ingi Friðleifsson , framkvæmdastjóri Orkuseturs, sem segir að Íslendingar gætu sparað stórfé með einföldum aðgerðum.