[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Annar og þriðji stærsti sparisjóður landsins, Sparisjóður Hafnarfjarðar og Sparisjóður vélstjóra, sameinuðust formlega í gær undir heitinu BYR – sparisjóður. Ástæðan er fyrst og fremst breytt umhverfi á fjármálamarkaði.

Annar og þriðji stærsti sparisjóður landsins, Sparisjóður Hafnarfjarðar og Sparisjóður vélstjóra, sameinuðust formlega í gær undir heitinu BYR – sparisjóður. Ástæðan er fyrst og fremst breytt umhverfi á fjármálamarkaði. Orri Páll Ormarsson ræddi við stjórnendur hins nýja fyrirtækis, Magnús Ægi Magnússon og Ragnar Z. Guðjónsson.

Frá því ríkisbankarnir voru einkavæddir hefur orðið mikil breyting á fjármálamarkaði og staðan í dag er allt önnur en áður. Viðskiptabankarnir hafa vaxið gríðarlega og eflst að sama skapi. Fyrir vikið hefur samkeppnin aukist til muna. Það er m.ö.o. umhverfið sem hefur knúið á um þessar breytingar," segir Ragnar Z. Guðjónsson um helstu ástæðu samruna Sparisjóðs Hafnarfjarðar, SPH, og Sparisjóðs vélstjóra, SPV.

Nýtt fyrirtæki hóf göngu sína í gær undir heitinu BYR – sparisjóður. Ragnar, sem áður réð ríkjum hjá SPV, mun stýra því ásamt Magnúsi Ægi Magnússyni, sem áður veitti SPH forstöðu.

Sameiningin á sér tíu mánaða aðdraganda en í apríl í fyrra samþykktu stjórnir beggja sjóða að skoða kosti þess að sameinast. Tveimur mánuðum síðar var sameiningin samþykkt af stjórnum sparisjóðanna og fór þá í gang flókið lögformlegt ferli en Fjármálaeftirlitið þurfti að fara af kostgæfni yfir málið þar sem þetta mun vera í fyrsta skipti sem tveir stórir sparisjóðir sameinast eingöngu á viðskiptalegum forsendum, þ.e.a.s. þegar annar þeirra á ekki við ramman reip að draga. 1. desember var haldinn stofnfjáreigendafundur í báðum sjóðum, þar sem samruni var samþykktur einróma, og ný stjórn kosin. Þessu ferli lauk 11. desember þegar Fjármálaeftirlitið veitti formlegt leyfi fyrir sameiningunni. Síðan hefur sameiningarferlið staðið yfir og lauk ákveðnum áfanga í gær þegar gömlu nöfnunum var lagt og hið nýja tekið í notkun.

Ragnar segir menn hafa lagt nótt við dag undanfarna mánuði enda í mörg horn að líta þegar fyrirtæki renna saman. "Við settum okkur það markmið að viðskiptavinir okkar myndu ekki verða varir við samrunann og það tókst mjög vel," segir hann.

SPV og SPH höfðu lengi unnið saman að ýmsum verkefnum og Magnús og Ragnar segja að skemmtilegt hafi verið að sameina sjóðina enda hafi starfsemin skarast sáralítið. "Þetta small alveg saman. Sjóðirnir hafa að mestu starfað hvor á sínu markaðssvæðinu og útibú okkar eru t.a.m. hvergi hlið við hlið. Samlegðaráhrifin eru því mikil. Við höfum til gamans sagt að í stað þess að leggja saman 1 og 1 og fá 2 höfum við lagt saman 1 og 1 og fengið 3," segir Magnús.

Enda þótt breytt umhverfi á fjármálamarkaði sé aðalástæða samrunans koma fleiri þættir til. Ragnar segir að á síðustu misserum hafi komið að SPH og SPV nýir stofnfjáreigendur með brennandi áhuga á því að auka veg sparisjóðanna. "Sparisjóðirnir, sem oft hefur verið talað um sem fjórða hjólið í samkeppni á fjármálamarkaði, sátu eftir í þessu nýja umhverfi og við því þarf að bregðast. Þess vegna tókum við þá ákvörðun að sameinast í stórt og vaxandi fyrirtæki. Við viljum taka þátt í samkeppninni og vera góður valkostur fyrir fólkið og fyrirtækin."

Þarfir viðskiptavina orðnar fjölbreyttari

Magnús segir að þarfir viðskiptavinarins hafi öðrum þræði kallað á þessar breytingar líka. "Þær þarfir eru alltaf að verða meiri og fjölbreyttari. Við sjáum að fjöldi fyrirtækja hefur á undanförnum árum sótt í þessa svokölluðu útrás og bankarnir hafa fylgt þeim. Ef við hefðum ekki stigið þetta skref þá hefðu okkar viðskiptavinir einfaldlega þurft að leita annað eftir því baklandi sem þarf."

Þeir Ragnar segja að þetta eigi ekki síður við um starfsfólk fyrirtækisins. "Það er mikil samkeppni um starfsfólk á fjármálamarkaði og til þess að viðskiptavinirnir vaxi ekki frá okkur þurfum við hæft starfsfólk. Við vonumst til þess að BYR verði góður og spennandi vinnustaður fyrir hæfileikaríkt fólk og erum raunar ekki í nokkrum vafa um að fyrirtækið verður það," segir Ragnar.

Hagsmunir stofnfjáreigenda spila vitaskuld líka inn í. "Það hafa einnig orðið breytingar á þeim markaði. Menn hafa verið að kaupa stofnfé á yfirverði og vilja því að sjálfsögðu gera sparisjóðina að góðum fjárfestingarkosti í leiðinni. Við erum að vísu ekki með stofnfjármarkað hér eins og er en verið er að leggja drög að því og þær hugmyndir verða kynntar á aðalfundi BYRS 13. mars næstkomandi," segir Ragnar.

Kappkostað að finna spennandi lausnir

Sparisjóðsstjórarnir segja að viðskiptavinir SPH og SPV hafi alla tíð kunnað vel að meta þjónustu sem byggist á lipru skipulagi og stuttum boðleiðum. Áfram verði kappkostað að finna spennandi lausnir, sérsniðnar að þörfum hvers og eins, einstaklinga jafnt sem fyrirtækja. "Samruninn þýðir að við munum styrkja okkur sem bakland og getum gert miklu meira en við gátum gert áður," segir Magnús. "Nú getum við gert hluti einir sem við þurftum áður að fá aðra sparisjóði eða einhverja aðra aðila til að gera með okkur."

Einstaklingsþjónustan nær til allra æviskeiða og fyrirtækjaþjónustan til allra helstu þjónustuþátta sem fyrirtæki þarfnast. Auk hefðbundinnar inn- og útlánastarfsemi standa viðskiptavinum til boða persónutryggingar og lífeyrissparnaður með atbeina dótturfélaga sparisjóðsins. Magnús og Ragnar segja að mikil áhersla verði lögð á að koma til móts við þarfir allra aldurshópa og þá sérstaklega þarfir þeirra sem eru á vinnumarkaði eða nýkomnir inn á hann.

Spurðir um það hvort sameiningin muni skila sér í lægri viðskiptakostnaði og jafnvel lægri vöxtum segjast þeir bjartsýnir á það. "Þegar tímar líða mun þetta örugglega þýða að við getum boðið upp á betra verð en fræðin segja að fjármögnunarkostnaður okkar ætti að lækka eftir því sem við verðum stærri, sérstaklega erlendi fjármagnskostnaðurinn en hluti af okkar starfsemi er fjármagnaður í útlöndum. Þar erum við á sömu hringekjunni og viðskiptabankarnir," segir Magnús.

Aukin umsvif í útlöndum

Ísland er aðalmarkaðssvæði BYRS með áherslu á höfuðborgarsvæðið en starfsemin fer einnig fram víðar á Norðurlöndum og á meginlandi Evrópu. Magnús og Ragnar eru þó ekki hrifnir af orðinu "útrás" í þessu samhengi. "Báðir sparisjóðirnir hafa verið að fikra sig út til Evrópu og við erum í verkefnum í nokkrum löndum, má þar nefna Danmörku, Bretland Spán og Austur-Evrópu, þótt ekki sé það í sama mæli og viðskiptabankarnir. Þetta hefur fyrst og fremst verið gert vegna þarfa okkar viðskiptavina en upp á síðkastið höfum við líka verið að fikra okkar áfram í fjárfestingum erlendis. Það er nokkuð sem við munum horfa til í auknum mæli á komandi misserum enda mun hægara um vik eftir samrunann. Slagkrafturinn er orðinn meiri og sjóndeildarhringurinn stærri," segir Ragnar og upplýsir að nýverið hafi BYR sett á laggirnar félag í London í samstarfi við breska aðila. "Við munum skýra betur frá því verkefni á næstu vikum," segir Ragnar.

Heildareignir BYRS losa hundrað milljarða króna og sparisjóðsstjórarnir segja að það sé mjög mikilvægur þröskuldur að komast yfir. "Ef efnahagurinn er kominn yfir einn milljarð evra færist maður ósjálfrátt upp um þrep í augum evrópskra banka. Það kemur til með að nýtast okkur," segir Magnús.

BYR hefur verið að vinna að ýmsum verkefnum með öðrum innlendum aðilum, m.a. öðrum sparisjóðum, og Magnús og Ragnar staðfesta að það verði gert áfram.

Óttast ekki nafnabreytinguna

Sparisjóður Hafnarfjarðar á sér meira en hundrað ára sögu og Sparisjóður vélstjóra varð 45 ára á síðasta ári. Magnús og Ragnar óttast eigi að síður ekki afleiðingar þess að leggja gömlu nöfnunum.

"Það er ekkert nýtt að fjármálastofnanir breyti um nafn, sjáðu bara Kaupþing og Glitni, ekki hafa þær breytingar skaðað þessi fyrirtæki. Hér er að verða til nýtt fyrirtæki, sem byggir vissulega á gömlum og traustum grunni, en horfir fyrst og fremst fram á veginn. Partur af því er að flykkja sér saman undir nýju nafni. Ef við myndum halda nöfnunum ættum við á hættu að festast í gamla kúltúrnum, við og þið. Það viljum við ekki," segir Ragnar.

Hann segir að vissulega sé mönnum hlýtt til gömlu nafnanna en með tíð og tíma hafi nafnið Sparisjóður vélstjóra verið farið að standa því fyrirtæki fyrir þrifum. "Við létum kanna málið og komið hefur í ljós að margir hafa ekki hugmynd um það að þeir geti komið hingað í viðskipti. Þess vegna höfum við notað nafnið SPV síðustu árin."

Magnús viðurkennir að þetta sé viðkvæmara í Hafnarfirði enda tengist SPH ákveðnu svæði en ekki starfsgrein. Hann segir að nafn og merki Sparisjóðs Hafnarfjarðar hafi verið að þróast í takt við þær breytingar sem orðið hafa á markaðnum undanfarin fimmtán ár eða svo og fyrirtækið í auknum mæli farið að nota skammstöfunina, SPH. "Kannski mun einhverjum þykja þetta mikil goðgá en ég hef engar áhyggjur af þessu. Heimurinn er á fleygiferð, bæði hér heima og erlendis, og ef menn ætla að festast í því hugarfari að hugsa alltaf hundrað ár aftur í tímann komast þeir hvorki lönd né strönd. Við sjáum það best á okkar ágæta þjóðfélagi.

Menn mega heldur ekki gleyma því að enda þótt nöfnunum sé lagt er allt annað óbreytt og möguleikarnir meiri. Fólkið er það sama og þjónustan verður betri," segir Magnús.

Starfsmenn BYRS eru 175 talsins, þar af um 100 í höfuðstöðvunum. "Með auknum umsvifum og nýjum sviðum mun þessi fjöldi aukast á komandi misserum," segir Ragnar.

Vilja vera undir einu þaki

Útibú SPH og SPV verða á sínum stað á mánudaginn og verða opnuð undir heitinu BYR – sparisjóður en enn á eftir að finna hinu nýja fyrirtæki höfuðstöðvar til frambúðar. "Við leggjum áherslu á það að vera undir einu þaki en því miður hefur viðunandi húsnæði ekki fundist ennþá," upplýsir Ragnar og Magnús bætir við að verið sé að leita logandi ljósi að húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Það yrði enn eitt skrefið í samrunaferlinu.

orri@mbl.is

Hreyfing fram á við

Nafnið BYR táknar meðvind í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Það er komið úr sjómannamáli og jákvætt í eðli sínu; að fá byr í seglin. Hugmynd er sögð fá góðan byr þegar henni er vel tekið. Byr er sá sem ber eða hreyfir eitthvað áfram.

Nafnið er íslenskt og er eins í öllum föllum nema eignarfalli en þá bætist -s við það.

Merki hins nýja fyrirtækis er myndgerð af nafninu sem er skylt söginni "að bera" og felur í sér hreyfingu. BYR er "hagstæður vindur" sem ber fleyið áfram. Merkið tekur mið af upprunanum þar sem rendurnar tákna SPV og SPH sem saman mynda nýtt tákn og nýja heild. Uppruni fyrirtækisins er líka dreginn fram með litanotkun. Vörumerkið á að túlka hugsunina "persónulegur og framsækinn".