Ólga Mótmælendur hafa kveikt bál á götum borgarinnar í óeirðunum.
Ólga Mótmælendur hafa kveikt bál á götum borgarinnar í óeirðunum. — AP
Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.

Eftir Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

NOKKUÐ bar á erlendum mótmælendum í hópi þeirra 400 sem lögreglan í Kaupmannahöfn hafði handtekið um hádegi í gær eftir miklar óeirðir í kjölfar þess að hústökufólki var gert að yfirgefa félagsmiðstöðina Ungdomshuset á Norðurbrú á fimmtudag. Í þeirra hópi voru aðgerðasinnar frá Svíþjóð, Noregi og Þýskalandi og höfðu mótmælendur hótað áframhaldandi aðgerðum í borginni þegar Morgunblaðið fór í prentun.

Rósa Erlingsdóttir, fréttaritari blaðsins í Kaupmannahöfn, sagði um hádegisbilið í gær að "allt væri eins og það ætti að sér að vera á Austurbrú", hverfinu þar sem hún býr.

"Það stendur til að leiða þetta fólk til yfirheyrslu á grundvelli dönsku stjórnarskrárinnar," segir Rósa.

"Það yrðu fjölmennustu yfirheyrslur í sögu landsins. Meirihluti almennings er andsnúinn þessum uppþotum. Þau vinna ekki með mótmælendum eða þeirra málstað. Þeirra forsprakkar eða talsmenn hafa ekki verið tilbúnir að ræða við þá fulltrúa borgarstjórnar sem vilja ná lausn í deilunni með því að bjóða þeim nýtt hús."

Sætta sig ekki við önnur hús

Rósa segir aðspurð að mótmælendur hafi ekki sætt sig við þau hús sem hafa komið til greina sem málamiðlun eftir að kristin samtök keyptu Ungdomshuset. Ungmennin vilji vera miðsvæðis á Norðurbrú, að öðrum kosti kunni menningin sem þau standi fyrir að fara forgörðum. Athyglin beinist nú að skóla í nágrenninu þar sem engin starfsemi sé um þessar mundir.

Óeirðirnar í borginni eru þær mestu sem um getur í áraraðir og aðfaranótt laugardags þurfti lögreglan að beita táragasi til að sundra hópi um 1.000 ungmenna á Norðurbrú. Héldu mótmælin áfram framundir morgun og bárust inn í Kristjaníu.