SOS tæknimenn RUV Undirrituð er sérstakur aðdáandi ríkisútvarpsins og þá sérstaklega Rásar I. Eftir að ég flutti í sveit hlusta ég allan daginn á Rás I, bæði í heyrnartóli við útiverk eða í góðu útvarpi við innistörf.

SOS tæknimenn RUV

Undirrituð er sérstakur aðdáandi ríkisútvarpsins og þá sérstaklega Rásar I. Eftir að ég flutti í sveit hlusta ég allan daginn á Rás I, bæði í heyrnartóli við útiverk eða í góðu útvarpi við innistörf. Reyndar er það nú svo að RÁS I sameinast alltaf RÁS II á langbylgju milli klukkan 14 og 22 og þannig var það alveg sama hvað við létum í okkur heyra við tæknimenn og sveitarstjórnarmenn, ekkert var hægt að gera. Þetta breyttist svo fyrir um einu ári síðan en þá fjárfestum við í nýju útvarpi, því besta á markaðnum. Síðan höfum við getað hlustað á RÁS I ótruflaða allan daginn á FM.

Sjónvarp hefur hingað til sést ágætlega á þessu svæði en þó aldrei í líkingu við það sem varð eftir að við keyptum Bang&Olufsen sjónvarpstæki. Þar sem þjónustan er fyrsta flokks hjá fyrirtækinu sendu þeir menn með tækið og nýtt loftnet þannig að ekkert gæti komið í veg fyrir það að gæðin yrðu fyrsta flokks. Við höfum aldrei haft Stöð II og Ríkissjónvarpið hefur nægt ágætlega enda að flestu leyti með fyrirtaks dagsskrá. Þvílík lífsgæði í fámennri sveit að hafa bæði sjónvarp og útvarp í gæðaflokki.

Þá kem ég að aðalefninu. Fyrir tæpum þremur vikum var verið að setja upp hér á svæðinu stafræna útsendingu sem ekkert tengist ríkissjónvarpinu að ég held en kann þó ekki að lýsa þessu nánar hvað um er að vera. Það skipti engum togum að útsendingin versnaði svo mikið að við gátum ekki einu sinni séð textavarpið óruglað og sjónvarpið fína varð ekki svipur hjá sjón. Ég hef hringt í alla mögulega og ómögulega tæknimenn og ýmsir hafa komið og aðeins batnaði útsendingin en þó er langt í land að hún sé ásættanleg. Ég hef í örvæntingu minni sýnt tæknimönnum ljósmyndir af því hvernig myndir litu út í sjónvarpinu áður en allt fór á hvolf en allt kemur fyrir ekki. Þeir eru jafn ráðalausir og ég. Ég veit að það er litið niður á okkur auma kotbændur en ég trúi því ekki að óreyndu að tæknimenn haldi að við séum heldur ekki dómbærir á gæði sjónvarpsútsendinga. Ég bý í beinni sjónlínu frá Ennishálsi þó það sé inni í afdal og hvers vegna er ekki hægt að horfa á sjónvarpið hreint eins og áður?

Íbúi í Kollafirði í Strandasýslu.

Misskipting

Þrátt fyrir lækkun tekjuskatts á fyrirtæki hafa skatttekjur ríkissjóðs af fyrirtækjum aukist, það dregur enginn í efa. Menn með samskonar rekstur sitja samt ekki við sama borð. Þar sem fyrirtækið heitir ehf (einkahlutafélag), greiðir það 18% í skatt og 10% vegna arðgreiðslna (samtals 28%), en þeir sem eru með samskonar rekstur á eigin kennitölu (einkafyrirtæki) greiða 35% skatt af launatekjum og hreinum tekjum (mismunur 7%). E.t.v. er þarna að finna einhverja skýringu á aukningu skatttekna á fyrirtæki. Einkahlutafélögum hefur jú fjölgað.

Það er undarlegt að í allri velmeguninni skuli enn vera skattlagðar tekjur, sem eru langt undir fátæktarmörkum, sem enginn hefur reyndar hirt um að reikna, þrátt fyrir tækni, sem völ er á að nota til þeirra hluta.

Á meðan sumir fitna af því að þurfa aðeins að greiða 10% skatt af svonefndum fjármagnstekjum þurfa aðrir að greiða 35% skatt af tekjum, sem tilkomnar eru á svipaðan hátt. Auk þess sem áður er nefnt á ég við lífeyrissjóðsgreiðslur, sem flokkaðar eru sem launagreiðslur, þótt þarna sé bersýnilega um fjármagnstekjur að ræða, sem tilkomnar eru vegna sparnaðar í formi framlaga í lífeyrissjóði á gengnum árum. Það má til sanns vegar færa að öll framlög til lífeyrissjóða séu undanþegin skattlagningu núna, þótt þau hafi ekki verið það alla tíð. Miðað við núverandi skerðingarákvæði tryggingabóta, af ýmsu tagi, hefur það skaffað ríkissjóði ómælda milljarða, að menn skuli yfir höfuð hafa greitt í lífeyrissjóði, svo að þeir geti sjálfir greitt sér bæturnar. Óneitanlega vaknar sú spurning hvort ekki séu ólög að skylda menn, sem ekki hafa fyrir brýnustu lífsnauðsynjum að greiða í lífeyrissjóð.

Hver treystir sér svo til að reikna hve stór hluti lífeyris er vegna vangoldinna skatta og hve stór hluti er fjármagnstekjur? Spyr sá sem ekki veit. Mér dettur reyndar í hug að það væri hægt að láta menn greiða 35% skatt af fyrstu 10 eða 12 prósentum lífeyris og 10% af eftirstandandi 88 eða 90 prósentunum.

Þórhallur Hróðmarsson