Frá Þorsteini Baldurssyni: "ÉG játa að ég er einn af þessum tillitslausu, freku Reykjavíkurbílstjórum, sem alltaf eru að flýta sér á milli óteljandi umferðarljósa."

ÉG játa að ég er einn af þessum tillitslausu, freku Reykjavíkurbílstjórum, sem alltaf eru að flýta sér á milli óteljandi umferðarljósa.

Þegar ég skoða huga minn um það hversvegna ég læt svona, þá koma eftirfarandi ástæður í hugann: Það fyrsta og mikilvægasta er þessi aragrúi af umferðarljósum um allan bæinn, það bíða þúsundir bílstjóra eftir gulgrænu ljósi og þeysa svo af stað til að ná næsta gulgræna ljósinu, þess vegna er umferðin svo spennt og rykkjótt. Í borgum og bæjum, þar sem menn óska eftir rólegri flæðandi umferð, eru notuð hringtorg.

Ég leyfi mér að stinga upp á að Vilhjálmur borgarstjóri sendi sína menn með lággjaldaflugfélagi til Danmerkur, þar geta þeir kynnt sér afslappaðri umferð en hér er. Ef Vilhjálmi finnst þetta of dýrt þá væri ráð að senda mennina til Hafnarfjarðar, þar sem miklu betri vinnubrögð eru stunduð, þar er mikið um hringtorg en ekki rauð ljós á hverju horni. Það mundi bæta andann í umferðinni ef maður hefði á tilfinningunni að reynt væri að greiða fyrir umferðinni en ekki að reynt að torvelda hana. Ég skal nefna örfá dæmi: Það mundi greiða umferð ef aðreinum til hægri væri fjölgað (án ljósa), mjög víða eru stórhættulegar hraðahindranir, svo klossaðar að ég hef séð erlenda ferðamenn á húsbílum brjóta bílana á þeim. Á hluta af Lönguhlíð var breitt úr tveggja akreina götu í eina akrein. Á gömlu Hringbrautinni er strætisvagnastöð þannig fyrirkomið (að óþörfu) að öll umferð stoppar meðan strætisvagninn athafnar sig. Allt þetta og margt fleira stuðlar að óánægju sem gerir umferðina leiðinlegri.

Við þekkjum öll að þegar okkur er sýnd lipurð og hjálp, þá smitar það okkur og við hjálpum næsta manni, þessa einföldu sálfræði mætti gatnamálastjórinn í Reykjavík hafa í huga.

ÞORSTEINN BALDURSSON

Snorrabraut 85, Reykjavík.

Frá Þorsteini Baldurssyni:

Höf.: Þorsteini Baldurssyni