Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson
Eftir Hjálmar Jónsson hjalmar@mbl.

Eftir Hjálmar Jónsson

hjalmar@mbl.is

ÖSSUR Skarphéðinsson, sem er í stjórnarskrárnefnd fyrir hönd Samfylkingarinnar, segir að fulltrúa Framsóknarflokksins hefði verið í lófa lagið að ná fram ákvæði um sameign á sjávarauðlindinni í stjórnarskrárnefnd, en staðreyndin sé sú að hann hafi aldrei lyft fingri til þess í nefndinni.

Össur sagði að þetta hefði verið stærsta áherslumál Samfylkingarinnar og allir fulltrúar stjórnarandstöðunnar hefðu stutt að ákvæði af þessum toga yrði tekið upp. Þá hefði sérstakur undirhópur, undir forystu eins af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að taka slíkt ákvæði upp og sá hópur hefði skilað tillögu að ákvæði inn á borð stjórnarskrárnefndar. Formanni nefndarinnar, Jóni Kristjánssyni, hefði því reynst auðvelt að koma ákvæðinu í gegn. "Það virtist hins vegar sem Framsóknarflokkurinn hefði ekki minnsta áhuga á því á meðan nefndin var að störfum. Formaðurinn hefur síðan sagt mér það að ekki sé fyrirhugað að halda fleiri fundi í stjórnarskrárnefnd, þannig að ekki bendir það nú til mikils áhuga. Í þessu ljósi er auðvitað mjög undarlegt hvað Framsóknarflokkurinn hefur allt í einu á síðasta spretti þingsins fengið mikinn áhuga á því að láta á málið reyna," sagði Össur.

Hann sagði að þarna virtist fyrst og fremst vera um það að ræða að slá pólitískar keilur. Samfylkingin væri þess hins vegar mjög fýsandi að svona ákvæði yrði samþykkt og myndi styðja það. Sömuleiðis væri það óhjákvæmilegt að Framsóknarflokkurinn yrði látinn standa við stóru orðin á Alþingi áður en það væri úti. Ef Framsókn sæi ekki til þess að frá ríkisstjórninni kæmi tillaga af þessu tagi inn í þingið, í anda þess sem rætt hefði verið um í stjórnarskrárnefnd, myndi hann beita sér fyrir því að stjórnarandstaðan legði fram slíka tillögu og Framsókn yrði þannig látin standa frammi fyrir því hvort hún styddi slíka tillögu eða ekki. "Framsóknarflokkurinn verður látinn standa við þessar yfirlýsingar."