Vilhjálmur Ari Arason
Vilhjálmur Ari Arason
Vilhjálmur Ari Arason fjallar um lyfjanotkun og heilsufar barna: "Það er óásættanlegt að íslensk börn búi við áskapaða vanheilsu vegna vítahringsáhrifa sem tengjast ótímabærum lyfjaávísunum og skyndilausnum."

RANNSÓKNANIÐURSTÖÐUR nýlegrar íslenskrar rannsóknar hafa sýnt fram á sterk tengsl sýklalyfjanotkunar barna og þróunar penicillín-ónæmra pneumókokka á Íslandi á árunum 1993–2003. Þróunin á Íslandi hefur verið heilbrigðisyfirvöldum erlendis umhugsunarefni, sérstaklega þar sem notkun sýklalyfja er bundin við ávísanir læknanna sjálfra og er þróunin á Íslandi oft nefnd, öðrum löndum "víti til varnaðar". Nægir þar að nefna hundruð tilvitnana í erlendum vísinda- og læknatímaritsgreinum um þróun sýklalyfjaónæmis tengda sýklalyfjaávísunum til barna á Íslandi. Niðurstöðurnar sýna að ónæmar bakteríur blómstra í nefkoki 30% barna sem fengið hafa sýklalyf og smitast síðan auðveldlega á milli barna, jafnvel barna sem ekki hafa fengið sýklalyf. Samt eykst sýklalyfjanotkunin að meðaltali um 6% á ári samkvæmt nýjustu tölum og er aukningin enn meiri meðal barna. Nú dugar ekki lengur fyrir Íslendinga að berja sér á brjóst og stæra sig af lægstu nýburadánartíðni meðal þjóða og háum meðalaldri. Dánartíðnitölur geta snarlega breyst á komandi árum ef þróunin fer á versta veg. Doktorsritgerð höfundar um efnið má nálgast á http://www.laeknadeild.hi.is/page/rit

Sýklalyfjaónæmi algengustu sýkingarvalda tengt mikilli sýklalyfjanotkun

Þótt furðulegt megi teljast, gleymist samt þessi umræða ævinlega þegar rætt er um lýðheilsumál barna almennt en sýklalyfjaónæmi er samt ein af alvarlegustu heilbrigðisógnum framtíðar að mati alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar WHO. Aðal-skilaboð stofnunarinnar er að draga verulega úr sýklalyfjanotkuninni sem oftast er óþörf eins og rannsóknir hér og erlendis sýna. Aðalvandinn á Íslandi, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu er að foreldrar kjósa oft frekar að sækja skyndiþjónustu fyrir börnin sín, oftast vegna eyrnabólgu tengdrar kvefi og veirusýkingum, í stað að leita til "eigin" læknis, sem getur ákveðið að fylgja málum eftir og endurmetið sýkingarástandið í stað þess að gefa út ótímabærar sýklalyfjaávísanir. Mjög mikil og stöðugt aukin aðsókn á kvöld- og helgarvaktir lækna á höfuðborgarsvæðinu sýnir þessa þróun. Góð skyndiþjónusta er auðvitað nauðsynleg ef hún þarf að vera í jafnvægi við eðlilega dagþjónustu þar sem allt kapp er lagt á að uppfylla gæðakröfur til slíkrar þjónustu.

Erfið staða foreldra og vítahringur sýklalyfjanotkunar

Það er óásættanlegt að íslensk börn búi við "áskapaða" vanheilsu vegna vítahringsáhrifa sem tengjast ótímabærum lyfjaávísunum og skyndilausnum. Eins og staðan er í dag er ekki endilega spurt hvað börnunum henti best í þessu sambandi heldur stuðlar kerfið meira að því að foreldrar þurfi ekki að fá frí frá vinnu á daginn til að sækja læknishjálp fyrir börnin og að foreldrarnir þurfi jafnvel ekki að taka sér frí næstu daga vegna veikinda barnanna þar sem sýklalyfin eru oft látin duga sem einhverskonar "gæðatrygging" fyrir batanum. Afleiðingar eru hins vegar slæmar þegar til lengi tíma er litið, hratt vakandi ónæmi sýkla þannig að stöðugt verður erfiðara að treysta á örugga sýklalyfjameðferð við alvarlegri sýkingum, meiri líkur á endurteknum sýkingum eins og miðeyrnabólgum og þá meiri notkun hljóðhimnuröra eins og sást í ísl. rannsókninni þar sem við eigum sennileg heimsmet, en upp undir helmingur allra barna fær rör á sumum stöðum. Þessu fylgir einnig sífellt meira óöryggi foreldra þegar nýjar sýkingar banka upp á og sem kallar þá á svipaða úrlausn eins og áður og þrýsting á nýja sýklalyfjameðferð. Þótt íslenska rannsóknin hafi aðeins náð til barna má draga þá ályktun að líklega eigi sér svipað stað með sýklalyfjaávísanir til foreldranna sjálfra og reyndar allra aldurshópa. Heilbrigðiskostnaðurinn eykst síðan auðvitað í takt við þessa þróun og aukið sýklalyfjaónæmi í þjóðfélaginu hefur ófyrirsjáanlegar alvarlegar afleiðingar fyrir lýðheilsu allra landsmanna í náinni framtíð. Á hitt ber einnig að líta að töluvert vantar upp á að heilsugæslan geti annað mikið meiri eftirspurn á daginn eins og staðan er í dag, svo þar verður að einnig að gera stórátak í uppbyggingu og skipulagningu.

Við berum öll ábyrgð á heilsu barnanna okkar

Hagur barna í þessu ljósi er sérstaklega athyglisverður þar sem börnin sem hópur eiga sér ekki neinn ákveðinn málsvara eins og staðan er í dag, eins og t.d fullorðnir eiga með ýmsum hagsmunasamtökum. Hagsmunaaðilar barnanna eru hins vegar oft illa settir foreldrar, sundurleitur hópur með takmarkaðan frítökurétt vegna veikinda barnanna sinna og miklar skuldir og mikið vinnuálag. Umræðan nú um fátækt barna á Íslandi er þó athyglisverð í þessu sambandi, sérstaklega ef tölur um 7% barna undir fátæktarmörkum eru réttar. Takmörkuð læknis- og sálfræðiaðstoð barna og unglinga með bráðageðvandamál er einnig mikið áhyggjuefni. Fleira mætti nefna um slæma stöðu barna í íslenska heilbrigðiskerfinu eins og t.d. sést í niðurstöðum nýlegrar rannsóknar MUNNIS þar sem tannskemmdir meðal ísl. barna eru algengari en á hinum Norðurlöndunum og helmingi algengari en í Svíþjóð. Sennilega ræður efnahagur og tímaleysi foreldra þarna einnig miklu.

Höfundur er heilsugæslulæknir.

Höf.: Vilhjálmur Ari Arason fjallar um lyfjanotkun, heilsufar barna