Guðbjörg Sigurðardóttir fæddist á Akureyri 1956. Hún lauk stúdentsprófi frá MA 1976, kennaraprófi frá KHÍ 1980 og BS-prófi í tölvunarfræði frá HÍ 1983.

Guðbjörg Sigurðardóttir fæddist á Akureyri 1956. Hún lauk stúdentsprófi frá MA 1976, kennaraprófi frá KHÍ 1980 og BS-prófi í tölvunarfræði frá HÍ 1983. Guðbjörg var starfsmaður tölvudeildar Ríkisspítala 1985–1997, verkefnisstjóri í forsætisráðuneyti og formaður verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið 1997–2002, aðstoðarmaður menntamálaráðherra 2002–2003 og skrifstofustjóri á skrifstofu upplýsingasamfélagsins frá 2004. Guðbjörg er gift Skúla Kristjánssyni tannlækni og eiga þau tvo syni.

Forsætisráðuneytið og fjármálaráðuneytið standa fyrir degi upplýsingatækninnar, UT-deginum, 8. mars næstkomandi. UT-dagurinn er nú haldinn í annað sinn, en yfirskrift UT-dagsins í ár er Nýtum tímann – notum tæknina .

Guðbjörg Sigurðardóttir er skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu: "Tilgangur UT-dagsins er að skapa umræður um tækifæri Íslendinga á sviði upplýsingatækni og upplýsingaiðnaðar," segir Guðbjörg. "Eins og yfirskrift dagsins gefur til kynna er UT-dagurinn að þessu sinni helgaður leiðum til að bæta þjónustu, einfalda samskipti milli einstaklinga, fyrirtækja og stofnana."

Á laugardag var UT-blaðinu dreift með Morgunblaðinu. "Blaðið er efnismikið og má þar finna fjölmargar greinar tengdar þema UT-dagsins. Í blaðinu má meðal annars fræðast um hvað opinberir aðilar eru að gera til að bæta rafræna þjónustu og spara þannig almenningi sporin og stytta þann tíma sem fólk þarf að verja í samskipti við stjórnsýsluna," segir Guðbjörg.

Ísland.is

Á miðvikudag verður þjónustuveitan Ísland.is opnuð: "Ísland.is er samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga sem forsætisráðuneyti stýrir. Á vefnum verða gerðar aðgengilegar á einfaldan hátt hagnýtar upplýsingar um þjónustu hjá ríki og sveitarfélögum," segir Guðbjörg. "Þar verður hægt að finna öll helstu eyðublöð sem almenningur þarf að nota í samskiptum sínum við stjórnsýsluna, upplýsingar um sveitarfélög og ríkisstofnanir og einnig upplýsingar á erlendum tungumálum fyrir innflytjendur. Ísland.is er því ætlað að vera fyrsti staðurinn þar sem fólk leitar sér upplýsinga um þjónustu opinberra aðila. Jafnt og þétt verður gagnvirk þjónusta aukin og stefnt er að því að fólk geti lokið miklum hluta samskipta sinna við stofnanir og sveitarfélög gegnum síðuna."

Hápunktur UT-dagsins er ráðstefna í Salnum, Kópavogi: "Þar verður fluttur fjöldi áhugaverðra erinda, meðal annars fjallað um samstarfsverkefni fjármálaráðuneytisins og bankanna um rafræn skilríki og vefurinn Ísland.is kynntur vandlega," segir Guðbjörg.

Ráðstefnan stendur frá 13 til 16.30 og er öllum opin meðan húsrúm leyfir. Skrá þarf þátttöku með tölvupósti á netfangið skraning@appr.is eða í síma 511-1230 fyrir hádegi 5. mars.

"Strax að ráðstefnunni lokinni verður sýningin Tækni og vit 2007 opnuð í Fífunni í Kópavogi," segir Guðbjörg. "Sýningin stendur til 11. nóvember, en þar munu bæði fyrirtæki og opinberir aðilar kynna vörur og þjónustu á sviði upplýsingatækni. Sýningin verður stór og full af spennandi nýjungum."

Dagskrá UT-dagsins má finna á slóðinni www.ut.is.