Ebba Thorarensen fæddist á Flateyri 10. ágúst 1923. Hún andaðist á Landspítala – háskólasjúkrahúsi í Fossvogi 26. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Ingibjörg Markúsdóttir, f. á Reyðarfirði 1899, og Ragnar D. Thorarensen, f. á Skarðstöð 1892. Eftirlifandi systkini hennar eru Sigrún, f. 1927, Anna Ragnheiður, f. 1935, og Bjarni Páll, f. 1936. Látinn er Pétur Hamar, f. 1926. Ebba ólst upp á Flateyri og stundaði nám þar og síðar í Kvennaskólanum á Blönduósi.

Ebba giftist 6. júlí 1944 jafnaldra sínum frá Flateyri, Ebenezer Þórarni Ásgeirssyni, f. 15. maí 1923, d. 8. október 1997. Foreldrar hans voru hjónin Ásgeir Guðnason og Jensína Eiríksdóttir. Ebba og Ebenezer eignuðust þrjú börn sem eru: 1) Jónína, f. 17. október 1943, gift Böðvari Valgeirssyni. Börn þeirra eru Elín, f. 11. apríl 1962, Hrefna, f. 8. marz 1966, og Ebenezer Þórarinn, f. 2. marz 1970. Barnabörn þeirra eru sjö. 2) Ragnheiður Ingibjörg, f. 1. júní 1948, gift Stefáni Friðfinnssyni. Sonur þeirra er Þórarinn Ásgeir, f. 29. ágúst 1967. Þau eiga eitt barnabarn. 3) Ásgeir, f. 29. október 1951, kvæntist Guðlaugu Jónsdóttur, þau skildu. Börn þeirra eru Ebenezer Þórarinn, f. 12. nóvember 1976, Hinrik, f. 5. desember 1989, og Lára, f. 11. marz 1992.

Ebba og Ebenezer bjuggu á Flateyri til 1949 en fluttust þá til Stykkishólms og þaðan til Reykjavíkur 1952. Ebenezer varð umsvifamikill frumkvöðull og athafnamaður sem stofnaði fyrst og rak iðnfyrirtækið Hansa hf. og síðar Vörumarkaðinn hf. sem var fyrsta alhliða lágvöruverslun landsins.

Útför Ebbu var gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík 1. febrúar síðastliðinn.

Maður kynnist einstaka sinnum fólki sem hefur þann eiginleika að án þess nokkurn tíma að neyða skoðunum sínum upp á aðra og líka án þess að maður verði þess í raun nokkurn tíma var hefur ótrúlega mikil áhrif á líf manns og lífsskoðanir. Þetta gerist líka þannig að maður tekur helst ekkert eftir því að það hefur gerst fyrr en manneskjan er horfin úr lífi manns. En maður er betri eftir fyrir það eitt að kynnast þannig fólki.

Þannig manngerð var tengdamóðir mín Ebba Thorarensen sem, eftir skamma legu, andaðist hinn 26. janúar síðastliðinn á Landspítala – háskólasjúkrahúsi í Fossvogi. Það var líka alveg í samræmi við líf hennar allt að mæla svo fyrir að hún vildi láta gera sem minnst úr brottför sinni úr þessum heimi og láta aðeins þá nánustu vera viðstadda jarðarförina enda væri með öllu ástæðulaust að ónáða fólk um miðjan vetur þó hún væri kvödd.

Ebba var fædd á Flateyri við Önundarfjörð árið 1923 og var því á 84. aldursári þegar hún lést. Þrátt fyrir nokkuð háan aldur var hún ótrúlega heilsuhraust bæði andlega og líkamlega allt til þess tíma að er hún, skömmu fyrir síðustu jól, kenndi sér meins og lést síðla í janúar eftir tvær stuttar legur á spítala.

Ebba giftist ung tengdaföður mínum Ebenezer Ásgeirssyni, sem einnig var frá Flateyri, og helgaði líf sitt því að styðja hann og búa honum og börnum þeirra gott og fallegt heimili allt þar til hann lést árið 1997. Eftir það bjó Ebba ein á heimili þeirra allt til þess að hún hóf sína hinstu sjúkrahúslegu.

Ebenezer var mikill athafnamaður sem gustaði af og sem markaði spor bæði í iðnsögu og iðnþróun og í verslunarrekstri á Íslandi. Það var því ávallt mikið umleikis kringum fyrirtæki hans og rekstur og við það erli allt var Ebba manni sínum stoð og stytta og honum miklu meiri stuðningur en kannski aðrir en þeir allra nánustu gerðu sér grein fyrir. Það fór auðvitað ekki hjá því að oft reyndi á þau hjón í verulegum umsvifum í rekstri og viðskiptum við alls kyns ytri aðstæður og þá var Ebba kletturinn sem treysta mátti á að aldrei haggaðist og alltaf var til staðar hvernig sem hlutirnir veltust. Heimilið var heilagt skjól í öllum vindum hvaðan sem þeir blésu.

Ebba var einstök smekkmanneskja um flesta hluti hvort sem var klæðnaður, litasamsetningar eða húsgögn og heimili þeirra bar þess glögg merki þar sem hún kom að var sterkt samræmi í öllum umbúnaði og sem líka bar þess vitni að þau hjón höfðu víða farið og margt séð á ferðum sínum.

Eftir lát Ebenezers tók við nýtt æviskeið Ebbu sem í tíu ár var algjörlega sjálfri sér nóg og tók yfir öll þau daglegu umsvif sem hún hafði lítið sinnt meðan hans naut við. Hún sinnti því eins og öðru til síðasta dags þannig að ekki varð betur gert. Það var einmitt einkenni hennar að allt sem hún gerði það gerði hún vel. Ef ekki var hægt að gera það vel mátti eins vel láta það ógert. Hún var ótrúlega fróð um marga hluti og gat jafnt haft skoðanir á alþjóðamálum sem innanlandsmálum og varð ekkert auðveldlega rekin á gat hvort sem umræðan var um málefni dagsins eða eldri tíð. Það átti bæði við um stjórnmál sem viðskipti, en Ebba var ótrúlega fróð um hvort tveggja og áhugasöm. Sá eðlisþáttur sem mér þótti þó vænst um í fari hennar og sem var mjög ríkjandi var jákvæðni sem ávallt skein í gegn hvert sem umræðuefnið var. Ebba var ákaflega bjartsýn að eðlisfari og allt til síðustu stundar var hún sannfærð um að framtíðin tæki alltaf fortíðinni fram og að heimurinn færi alltaf batnandi. Þannig ættu menn ekki að vera að velta sér upp úr fortíðarhyggju nema til þess að læra að endurtaka ekki mistökin sem nóg hefði verið af en gera einfaldlega betur næst. Margir miklu yngri mættu taka hana sér til fyrirmyndar um margt en ekki síst þann hæfileika að skilja að málefni fortíðarinnar tilheyra fortíðinni og það sem máli skiptir er að nota nútíðina til að undirbúa ennþá betri framtíð. Sjálf hafði hún tröllatrú á ungu fólki og var þeirrar skoðunar að hver ný kynslóð væri þeirri fyrri betri enda væru möguleikarnir alltaf að aukast fyrir ungt fólk að nýta hæfileika sína. Sjálf hafði hún reynt kreppu og haftatímabil og forsjárhyggju á flestum sviðum og vildi engum að endurtaka það efnahagsástand með öllu sem því fylgdi.

Okkur sem nutum samveru við Ebbu Thorarensen og kynntumst henni vel finnst við hafa orðið einhvern veginn betri fyrir það eitt að hafa þekkt hana og orðið fyrir áhrifum af henni.

Það er gott að minnast hennar og að ferðalokum þökkum við samfylgdina.

Stefán Friðfinnsson.