Engin siðbót Straw vill umbætur.
Engin siðbót Straw vill umbætur. — Morgunblaðið/KBL
Eftir Karl Blöndal kbl@mbl.

Eftir Karl Blöndal

kbl@mbl.is

Jack Straw, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands og leiðtogi Verkamannaflokksins á þingi, er þeirrar hyggju að það væri múslímum til góðs ef uppgjör í ætt við siðbótina, sem Lúther og Kalvín leiddu í kristinni trú, ætti sér stað meðal þeirra.

Straw sagði á fundi með blaðamönnum frá Mið-Austurlöndum, Afríku og Evrópu að brýn þörf væri á umræðu. Hún ætti sér stað milli arabískra þjóðarsinna og Múslímska bræðralagsins í Egyptalandi og síðan væri ágreiningur sjía og súnnía. "En það hefur ekki átt sér stað siðbót eins og var í kristindómi á 16. öld," sagði Straw. "Án hennar hefði kapítalisminn aldrei orðið. Múslímaheimurinn var vagga algebrunnar, algóritmans og annarra fræða, en hann hefur ekki átt sambærilegt blómaskeið síðan, fyrir utan kannski Íran."

Sér ekki eftir að hafa vakið blæjudeiluna

Straw vakti mikið uppnám þegar hann sagði að blæjur fyrir vitum múslímskra kvenna væru ávísun á aðskilnað. Hann kvaðst á fundinum ekki sjá eftir að hafa vakið þessa umræðu. "Það kom kona með blæju fyrir andlitinu á fund minn og sagði: "Gott að hitta þig augliti til auglitis, herra Straw." Ég hugsaði með mér að þetta væri skrítið vegna þess að ég sæi hana ekki, en sagði við sjálfan mig að best væri að þegja. Síðan fór ég hins vegar að hugsa málið."

Straw kvaðst ekki sjá eftir að hafa vakið þessa umræðu: "Það er ekki hægt að vega hvert orð og meta, annars myndi maður aldrei segja neitt, sem skiptir máli."