Frá Páli Steingrímssyni: "FYRIR hundrað árum voru opin skólpræsi algeng í þéttbýli á Íslandi, en þau þóttu strax til lýta og menn leituðust við að koma skólpleiðslum í jörð. Í dag eru lagnamál eitt það fyrsta sem ráðist er í þegar búsvæði eru skipulögð."

FYRIR hundrað árum voru opin skólpræsi algeng í þéttbýli á Íslandi, en þau þóttu strax til lýta og menn leituðust við að koma skólpleiðslum í jörð. Í dag eru lagnamál eitt það fyrsta sem ráðist er í þegar búsvæði eru skipulögð. Kostnaður við slíkt þykir það sjálfsagður að enginn orðar aðra leið til lausnar. Í dag er fjálg umræða um kostnað við lögn rafstrengja í jörð þar sem mest óprýði er að háspennumöstrum. Staglast er á tölum um kostnað eins og að á því velti hvar strengirnir lenda.

Íslendingar búa við einhverja mestu velmegun sem þekkist. Við þurfum ekki að útbía landið eða spilla því vegna örbirgðar. Umgengi okkar er til vansa, hvernig sem á það er litið. Við bruðlum á öllum sviðum en þegar kemur að jafnsjálfsögðum hlut og að hlífa landinu þá frjósa menn á tilkostnaði. Við eigum að umgangast landið allt sem þjóðgarð og skilja hvergi eftir okkur spellvirki sem ekki verða bætt. Þetta er ekki spurning um kostnað. Þetta er spurning um siðferði og tilfinningu. Þeir sem grimmast ganga fram í áníðslu við landið hafa því miður enga tilfinningu fyrir því. Smekkleysið er algert sem sjá má af háspennumastrinu sem stendur á miðjum Gullfossi séð af útsýnispallinum við fossinn.

Við verðum að taka okkur á. Spurningin er ekki hvað kostar að hlífa landinu, heldur hvað getum við gert til að valda sem minnstum skaða í öllu bröltinu.

Háspennumöstur eiga hvergi heima nálægt byggð. Þau eiga ekki heldur heima á öræfum þar sem menn vilja njóta ósnortinnar náttúru og finna hugarró. Þessi tröllaskógur á ekki heima á Íslandi .

Ef við höfum ekki efni á að ganga frá eftir okkur, þá höfum við ekki heldur efni á framkvæmdinni sem við réðumst í. Svo einfalt er það.

PÁLL STEINGRÍMSSON,

kvikmyndagerðarmaður.

Frá Páli Steingrímssyni: