Viðskiptahættir Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja felst meðal annars í því að setja markmið um að tileinka sér bestu viðskiptahætti hverju sinni.
Viðskiptahættir Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja felst meðal annars í því að setja markmið um að tileinka sér bestu viðskiptahætti hverju sinni. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Eftir Andra Karl andri@mbl.

Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

"SAMFÉLAGSLEG ábyrgð fyrirtækja felst í skuldbindingu til þess að auka samfélagslega velferð gegnum viðskipti og nýtingu þeirra auðlinda sem fyrirtæki hefur yfir að ráða, eða að beitt sé viðskiptaháttum sem mæta eða ganga lengra en skyldur eða væntingar í siðferðilegum, lagalegum, viðskiptalegum eða umhverfislegum efnum krefjast," sagði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri Reykjavíkur, á fræðslufundi fyrir stjórnendur hjá borginni í Höfða á föstudag en þar voru framsögumenn Róbert Wessman, forstjóri Actavis, og Guðjón Magnússon, sviðstjóri umsýslu og almannatengsla hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Spurður um samfélagslega ábyrgð segir Róbert að á hana sé hægt líta frá mörgum sjónarhornum. "Það er í fyrsta lagi hvernig við rekum fyrirtækið, s.s. hvað varðar uppbyggingu á okkar verksmiðjum en við höfum sett yfir tuttugu milljarða króna í að endurbyggja verksmiðjurnar á undanförnum árum," segir Róbert en fyrirtækið er nú starfandi í 32 löndum og hefur yfir að ráða tuttugu verksmiðjum. Hann segir mikla ábyrgð fylgja því hvernig komið sé fram við starfsfólk og hvernig starfsmannastefnu fyrirtæki séu með, auk þess að það skipti máli varðandi starfsfólkið að fyrirtækið hafi á sér gott orð. "Verksmiðjur okkar losa t.a.m. ekki mengandi efni út í umhverfið." Einnig er hægt að líta á samfélagslega ábyrgð út frá fjármagni sem lagt er í hin ýmsu verkefni og þar hefur Actavis lagt sitt af mörkum. "Við höfum tekið þátt í mörgum verkefnum, s.s. að styrkja íþróttahreyfinguna, og við höfum haft mjög gaman af því að vinna með Reykjavíkurborg að þessu forvarnarverkefni," segir Róbert og vísar í verkefnið "Youth in Europe" sem starfrækt er í borgum víðsvegar um Evrópu og Actavis styrkir.

Aðspurður hver sé munurinn á því að efla viðskiptavild fyrirtækisins og samfélagslegri ábyrgð segir Róbert það fara alveg saman. Hann segir þá fjármuni sem fara í verkefni sem ekki tengjast starfsemi fyrirtækisins verða til þess að þjappa starfsfólkinu saman. "Fólk er stolt af þessu og að Actavis sé að leggja til fjármuni til flestra af þessum verkefnum, þannig að inn á við er þetta mjög gott fyrir starfsmennina. Út á við erum við að byggja okkar ímynd," segir Róbert og bætir því við að til lengri tíma litið muni þessir fjármunir skila sér aftur til fyrirtækisins.

Spurður um verkefni sem eru á döfinni hjá Actavis nefnir Róbert að fyrirtækið horfi á það til lengri tíma að leggja baráttunni við alnæmi lið. "Við höfum verið að þróa töluvert mikið af þeim alnæmislyfjum sem til eru í dag. Í raun og veru er alnæmi stærsta heilsufarsvandamál í heiminum, með um 40 milljónir manna sýktar." Róbert nefnir Afríku sem dæmi og segir að fyrirtækið muni án efa taka þátt í verkefnum til hjálpar þar. Hann vill hins vegar lítið um málið segja, enda á frumstigi.

Allir ferlar gegnsæir

Orkuveitan hefur sett sér markmið í samfélagslegri ábyrgð og segir Guðjón Magnússon hana m.a. felast í því að fyrirtækið tileinki sér bestu viðskiptahætti hverju sinni. "Við erum að setja okkur markmið í því enda erum við að framleiða vöru sem er lífsnauðsyn og það er mikil ábyrgð að skila henni til neytenda rétt. Það sem við ætlum að gera er að ganga lengra en lög og reglur segja til um og tileinka okkur enn frekar góða stjórnunarhætti með því að hafa alla ferla og allt það sem við erum að gera gegnsætt." Guðjón segir umhverfismál einnig hugleikin og innan Orkuveitunnar vilji menn sýna samfélagslega ábyrgð í þeim efnum. Þar að auki minnist Guðjón á verkefni sem fer af stað í Afríkuríkinu Djíbútí, en þangað er Orkuveitan að flytja þekkingu. "Við erum að dreifa þekkingu til þjóða sem ekki hafa hana. Til að mynda í Djíbúti er náttúruauðlindin fyrir hendi en þrátt fyrir það nota menn jarðefnaeldsneyti til raforkuframleiðslu."