Einhuga Jelena Bonner með eiginmanni sínum, Nóbelshafanum Andrei Sakharov. Þau börðust ákaft fyrir mannréttindum í Sovétríkjunum.
Einhuga Jelena Bonner með eiginmanni sínum, Nóbelshafanum Andrei Sakharov. Þau börðust ákaft fyrir mannréttindum í Sovétríkjunum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jelena Bonner var eiginkona hins heimsþekkta andófsmanns Andrei Sakharovs í Sovétríkjunum. Hún er ekki hrifin af stjórnarfarinu í Rússlandi og segir málaferlin gegn auðkýfingnum Khodorkovski vera pólitískar ofsóknir. Kristján Jónsson ræddi við Bonner.

Jelena Bonner var eiginkona eins þekkasta andófsmannsins í Sovétríkjunum sálugu, kjarneðlisfræðingsins Andrei Sakharovs, og varð hans hægri hönd er hann gerðist ákafur boðberi mannréttinda og friðar. Hann var aðalhöfundur sovésku vetnissprengjunnar á sjötta áratug síðustu aldar en gerðist harður gagnrýnandi flokkseinræðis kommúnista. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels 1975 og flutti Bonner ávarp hans í Ósló þar sem honum var meinað að yfirgefa Sovétríkin. Bonner hafði hins vegar fengið leyfi til að leita sér lækninga á Ítalíu en hún skaddaðist á augum í heimsstyrjöldinni síðari.

Sakharov lést 1989 en eiginkonan hélt áfram að segja ráðamönnum í Kreml til syndanna, nú á síðari árum hefur hún fordæmt hernaðinn í Tétsníu. Bonner hefur ekki legið á skoðunum sínum þótt heilsan sé farin að bila en hún er nú 84 ára aldri. Blaðamaður Morgunblaðsins komst yfir símanúmer hennar þar sem hún dvelst nú hjá dóttur sinni af fyrra hjónabandi í Boston í Bandaríkjunum. Þar hefur hún fengið læknishjálp og hefur á síðari árum búið ýmist í Moskvu eða Bandaríkjunum.

Bonner segist aðspurð fylgjast vel með því sem er að gerast í Rússlandi. Hún minnist í viðtalinu á málaferli gegn Alexei Pítsjúgín sem vöktu mikla athygli mannréttindasinna í Rússlandi á sínum tíma.

Pítsjúgín var yfirmaður öryggismála hjá olíufyrirtækinu Yukos sem auðkýfingurinn Míkhaíl Khodorkovskí og viðskiptafélagi hans, Platon Lebedev, stjórnuðu. Var Pítsjúgín handtekinn vorið 2003, sakaður um morð og loks dæmdur í 24 ára þrælkunarvinnu. En líkin hafa aldrei fundist og margt þykir undarlegt við réttarhöldin. Hefur getum verið leitt að því að Pítsjúgín hafi neitað að verða við kröfum um að sverta yfirmenn sína, þá Khodorkovskí og Lebedev, og bera vitni gegn þeim en þeir voru einnig handteknir sama ár, sakaðir um fjársvik. Báðir sitja nú í fangelsi í Síberíu.

-Hvert er álit þitt á ríkisstjórn Vladímírs Pútins Rússlandsforseta?

"Ég held að hún sé dæmi um spillta ríkisstjórn," svarar Bonner og bætir við að stefna stjórnarinnar minni sig á hugtak í máli rússneskra þjófa, ástand sem sé "malína" [alveg draumur].

-Á tímum Sovétríkjanna varstu þekktur andófsmaður kerfisins ásamt eiginmanni þínum, Andrei Sakharov. Finnst þér að það sem núna sé að gerast í Rússlandi Pútíns minni á þá tíma?

"Já, um sumt er þetta svipað, sérstaklega það sem tengist því að reynt er að endurlífga andlýðræðislegt ríki, að vísu í breyttri mynd. Þessi þróun minnir á Sovétríkin."

-Réttarhöldin yfir Khodorkovskí hafa vakið mikla athygli og umtal á Vesturlöndum. Hvað finnst þér um þessi mál?

"Mér finnst ekki nógu mikið rætt um þessi mál. Ég held að Vesturlandabúar skilji ekki alveg stefnumótandi hlutverk þessara réttarhalda í þróun mála í Rússlandi. Og þeir telji að hægt sé að afsaka framferði stjórnvalda í Rússlandi í þessum málum."

-Telurðu að þetta séu engin alvöru réttarhöld? Eru þau af pólitískum toga?

"Já það tel ég. Þetta er algjör sýndarmennska og þau eru

án nokkurs efa pólitísk. Ég var og er ennþá meðal þeirra sem berjast fyrir mannréttindum í Rússlandi, var meðal þeirra sem sneru sér til mannréttindahreyfingarinnar Amnesty International á Vesturlöndum strax eftir handtökurnar til að fara fram á að litið yrði á Khodorkovskí og aðra sakborninga í máli Yukos sem pólítíska fanga. Mér sárnar að allt fram til dagsins í dag hefur Amnesty International ekki skilið pólítískt eðli þessara réttarhalda."

Hvers vegna Síbería?

-Khodorkovskí er ekki lengur í fangelsi í Moskvu heldur var hann sendur langt austur í Síberíu til afplánunar. Hver heldurðu að sé tilgangurinn með því að senda hann á þennan stað?

"Í Moskvu eru erlendir blaðamenn, diplómatar og allt sem gerist í Moskvu kemst miklu fremur í fjölmiðla á Vesturlöndum en það sem gerist úti á landi. Vera Khodorkovskís í fangabúðunum í Tsjíta og Lebedevs í Komí-búðunum er hreint og beint lögbrot. Ef dómstólar í Rússlandi væru óháðir myndu þeir viðurkenna að þetta sé brot á lögum og ógilda dóminn."

-Stuðningsmenn Pútíns og margir Vesturlandamenn segja oft að Khodorkovskí og aðrir auðkýfingar hafi hreinlega stolið þjóðarauði Rússlands. Ertu sammála því?

"Ég er ekki sammála þessu áliti vegna þess að þeir gerðu hlutina í samræmi við þau lög sem þá voru í gildi í landinu en þeir eru ákærðir á grundvelli laga sem síðar voru innleidd. Lagalega séð er þetta því tóm vitleysa.

Nú ætla ég aðeins að víkja frá þessu umræðuefni okkar. Ég hvet lögmenn á öllum Vesturlöndum til að athuga líka gaumgæfilega dómsmálið sem kennt er við Pítjsúgín. Í því hefur verið dæmt á algjörlega fölskum forsendum vegna þess að ekki hafa komið fram neinar sannanir gegn Khodorkovskí og Lebedev. Pítsjúgín fékk margra ára fangelsisdóm. Það skiptir mjög miklu máli að lögfræðingar fari rækilega yfir mál Pítsjúgíns."

Forsetakosningarnar 2008

-Ræðum forsetakosningarnar á næsta ári, telurðu að þær verði lýðræðislegar?

"Þær geta ekki orðið lýðræðislegar. Á undanförnum rúmlega tveimur árum hafa bæði kjörnefnd og sjálf dúman [þingið] lögleitt margar ályktanir sem hafa ógilt sjálft hugtakið "lýðræðislegt" hvað varðar flokka og frambjóðendur. Það ætti að hætta að nota orðið lýðræðislegt í sambandi við Rússneska Sambandsríkið yfirleitt, í sambandi við ríkisstjórnina, í sambandi við kosningar og þau lög sem sett eru af rússneska þinginu.

Þetta er allt andlýðræðislegt.

Hér vildi ég bæta við nokkru í sambandi við forsetakosningarnar. Árið 1936 var stjórnarskrá Stalíns samþykkt í Sovétríkjunum. Ef við lesum hana jafnvel núna, lítur hún fullkomlega lýðræðislega út.

12. desember 1937 fóru fram kosningar í fyrsta skipti í samræmi við þessa stjórnarskrá. Núna erum við á leiðinni í sams konar kosningar á næsta ári. Að tala um lýðræði og lýðræðislegar kosningar í Rússlandi er algjör sjálfsblekking."

-Eru núna til einhverjir fjölmiðlar í Rússlandi sem talist geta óháðir og sem hægt er að treysta að þínu mati?

Já, þeir eru til. Stöðin Ekho Moskví [Bergmál Moskvu], einnig nokkrir prentmiðlar. En hér þarf að hafa í huga að Rússland er stórt land. Útbreiddasti fjölmiðillinn er sjónvarpið, ekki bara í Rússlandi, allir heimsbúar horfa og hlusta aðallega á sjónvarp. Og það er ekki til óháð sjónvarp í Rússlandi. En ef ekki er til óháð sjónvarp þá má segja að ekki séu til neinir óháðir fjölmiðlar í orðsins fyllstu merkingu."

-Þú býrð í Bandaríkjunum. Ætlarðu að snúa aftur til Rússlands?

"Satt að segja þá bý ég ekki í Bandaríkjunum. Ég er bara veik hér," svarar Bonner og hlær við.

"En ég er orðin 84 ára og finnst erfitt að ímynda mér að heilsan eigi eftir að batna."

Í hnotskurn
» Andófsmaðurinn Andrei Sakharov gagnrýndi innrásina í Afganistan 1979 og ráðamenn í Moskvu ráku hann þá í útlegð til Gorkí [nú Nísní Novgorod]. Eiginkonan Jelena Bonner gat um nokkurra ára skeið smyglað greinum hans og ávörpum til Vesturlanda um Moskvu en var síðar líka meinað að yfirgefa Gorkí.
» Er Míkhaíl Gorbatsjov, forseti Sovétríkjanna, leyfði Sakharov-hjónunum að halda aftur til Moskvu 1986 sannfærðust margir loks um að hann meinti eitthvað með tali sínu um opnara samfélag.

kjon@mbl.is