[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Breski leikarinn Daniel Radcliffe hefur skrifað undir samning um að leika í síðustu tveimur Harry Potter-myndunum. Hann hefur nýverið fengið mjög góða dóma fyrir frammistöðu sína í hinu umdeilda leikriti Peters Schaffers , Equus, á sviði í London.

Breski leikarinn Daniel Radcliffe hefur skrifað undir samning um að leika í síðustu tveimur Harry Potter-myndunum. Hann hefur nýverið fengið mjög góða dóma fyrir frammistöðu sína í hinu umdeilda leikriti Peters Schaffers , Equus, á sviði í London.

Tökur á sjöttu Potter-myndinni hefjast í september, en fimmta myndin, Harry Potter og Fönix-reglan, verður frumsýnd síðar á þessu ári. Ekki liggur fyrir hvenær hafist verður handa við gerð myndar eftir sjöundu bókinni, sem J.K. Rowling tilkynnti nýverið að kæmi út 21. júlí. Sú ber heitið Harry Potter and the Deathly Hallows.

Radcliffe var 11 ára þegar hann var valinn úr hópi þúsunda drengja til að fara með hlutverk einnar ástsælustu sögupersónu allra tíma.

Breska hljómsveitin Muse var valin besta hljómsveitin á NME-verðlaunahátíðinni. My Chemical Romance var aftur á móti valin besta alþjóðlega hljómsveitin.

Úrslit voru í höndum lesenda tónlistartímaritsins NME en þeir fengu einnig að kjósa um það sem þótti miður vel heppnað á tónlistarsviðinu á síðasta ári. Robbie Williams þótti meðal annars eiga verstu plötu ársins, Rudebox.

Hljómsveitirnar The Killers og Arctic Monkeys voru einnig verðlaunaðar en þær riðu báðar feitum hesti frá Brit-verðlaunaafhendingunni sem fram fór í síðasta mánuði. The Killers þóttu eiga besta tónlistarmyndbandið en Arctic Monkeys besta tónlistarmynddiskinn og bestu plötuna.

Bestu nýliðarnir voru hljómsveitin Klaxons, besti sólólistamaðurinn Jamie T og besta lagið var "Wasted Little DJs" með The View.

Kvikmyndaklúbburinn Kínófíll sýnir í dag gamanmyndir með skoðun, að því er segir í fréttatilkynningu. Sýningarnar fara fram í Stúdentakjallaranum og hefjast klukkan 20.

Sýndar verða þrjár myndir:

Zero for Conduct ( Jean Vigo , 1933, Frakkland) sem segir frá nemendum heimavistarskóla og uppreisn þeirra gegn ægivaldi kennaranna þar.

Ohayo ( Yasujiro Ozu , 1959, Japan) sem fjallar um innihaldsleysi en jafnframt mikilvægi hversdagslegrar umræðu og það uppnám sem samfélag kemst í þegar börnin ákveða að hætta að tala til að þrýsta á foreldra sína til að kaupa sjónvarp.

Firemen's Ball ( Milos Forman , 1967, Tékkóslóvakía) sem tekur á stórskemmtilegan og afar misskiljanlegan hátt á árshátíð slökkviliðsmanna í smábæ í Tékkóslóvakíu þar sem ekkert gengur upp, en undir niðri er myndin gagnrýni á Sovétríkin og gildin sem þar ríktu og var hún bönnuð í heimalandinu nánast frá upphafi.

Ítarlegri umfjallanir um myndirnar má finna á heimasíðunni www.kinofill.blogspot.com.

Það er ókeypis inn.