Gaman "Það er rosalega gaman að mynda unglinga, mun léttara en að mynda yngri börn sem hlaupa út um allt,"
Gaman "Það er rosalega gaman að mynda unglinga, mun léttara en að mynda yngri börn sem hlaupa út um allt,"
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Harpa Hrund Njálsdóttir hefur rekið Ljósmyndaver Hörpu Hrundar í Fákafeni síðustu tvö ár. Harpa lærði ljósmyndum í Svíþjóð og Iðnskólanum og var svo í verklegu námi hjá Barböru Birgis í Skugganum.

Harpa Hrund Njálsdóttir hefur rekið Ljósmyndaver Hörpu Hrundar í Fákafeni síðustu tvö ár. Harpa lærði ljósmyndum í Svíþjóð og Iðnskólanum og var svo í verklegu námi hjá Barböru Birgis í Skugganum.

"Þegar ég var krakki málaði ég mikið og fór á nokkur námskeið í myndlist og fannst það mjög gaman en þegar ég kynntist ljósmyndun 13 ára þá bara einhvern veginn small allt saman, það var miklu skemmtilegra," segir Harpa spurð út í afhverju hún sneri sér að ljósmyndun.

Harpa fékk ekki myndavél í fermingargjöf á sínum tíma heldur keypti hún eina slíka fyrir peningana sem hún fékk í fermingargjöf þegar hún fór í ferð með foreldrum sínum til Þýskalands. "Þetta er Pentax-myndavél sem mér þykir mjög vænt um, þó að hún sé ónýt núna mun ég aldrei henda henni."

Fínar fermingarmyndir

Faðir Hörpu tók sjálfur myndir af henni á fermingardaginn úti í garði í Svíþjóð þar sem hún bjó á þeim tíma. "Ég er fegin að pabbi tók myndirnar m.v. þær myndir sem voru í gangi þá. Ég er óhrædd við að sýna fólki þær myndir í dag og skammast mín ekkert fyrir þær enda mjög fínar."

Harpa er á því að viðhorfið til fermingarmyndatökunnar hafi breyst svolítið seinustu ár. "Það eru fleiri núna sem finnst gaman að koma í myndatöku en áður. Fermingarbörnin fá líka að vera meira með í að velja ljósmyndara og hvaða fötum þau vilja láta mynda sig í."

Ekki stífar myndir

Ljósmyndaver Hörpu Hrundar býður upp á fjölbreytta fermingarmyndatöku. "Strákarnir koma oftast í myndatökuna þegar þeir eru búnir að velja fermingarfötin en stelpurnar koma sama dag og þær fara í prufugreiðsluna svo það sé hægt að mynda þær með greiðslu og án. Þau koma í sparifötunum og taka svo með gallabuxur eða annar hversdagsfatnað, einnig er gaman fyrir þau að hafa gæludýrin sín með á myndinni eða hljóðfæri, íþróttagalla eða eitthvað tengt áhugamálum. Ég reyni síðan að ná fram persónuleika hvers og eins og að hafa myndirnar ekki of stífar."

Það sem er í tísku í fermingarmyndum í dag að sögn Hörpu er að hafa myndirnar afslappaðar og ekki of uppstilltar. Harpa segir líka mjög fáa vilja myndir í fermingarkyrtlunum núna m.v. áður fyrr.

"Það er rosalega gaman að mynda unglinga, mun léttara en að mynda yngri börn sem hlaupa út um allt," segir Harpa og bætir við að eftirminnilegasta fermingarmyndatakan hafi verið þegar ein stelpa mætti með hænu með sér í myndatökuna.

"Að lokum vil ég beina því til fermingarkrakkanna að það er sniðugt að koma um mánuði fyrir fermingardaginn í myndatökuna svo albúmið verði tilbúið fyrir veisluna," segir Harpa.

ingveldur@mbl.is

www.harpahrund.is