Bleik Kjóll úr Rokk og rósum, skór úr Aldo, belti og hárskraut úr Skarthúsinu. Dansi danski dúkkan mín Kjóll, leggings og taska úr Rokk og rósum, skór úr Kron og spöng frá Skarthúsinu.
Bleik Kjóll úr Rokk og rósum, skór úr Aldo, belti og hárskraut úr Skarthúsinu. Dansi danski dúkkan mín Kjóll, leggings og taska úr Rokk og rósum, skór úr Kron og spöng frá Skarthúsinu. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er alltaf gaman en líka ákveðinn höfuðverkur að finna hin fullkomnu fermingarföt. Ingveldur Geirsdóttir leit í búðir til að sjá hvað er á boðstólum í ár.

Það er nokkuð ljóst að það er engin ein lína í gangi í fermingarfötunum í ár. Alls konar kjólar eru þó mikið fyrir stelpurnar, þeir eru þó frekar í styttir kantinum, oft svolítið gamaldags í sniðinu og jafnvel í skemmtilegum litum. Það er nefnilega þannig að þótt bleikt og hvítt sé mikið í stelpufötunum í ár, eins og undanfarið, þá er orðið meira um það að fermingarfötin séu í alls konar litum eða með fjörlegu blómamynstri.

Auk kjólanna eru skokkar mikið í tísku núna og stutt pils við fallegan bol. Innanundir þessum klæðum á svo að vera í leggings en ekki heilum sokkabuxum. Leggingsbuxurnar geta bæði verið síðar eða að hné, úr blúndu eða einlitar. Belti eru líka vinsæl til að kóróna klæðin.

Skórnir hjá stelpunum eru svo flatbotna eða með pínulitum hæl, oftast gylltir eða hvítir á litinn með slaufu á tánni eða öðru flottu skrauti.

Nú eiga fermingarfötin að duga lengur en þennan eina dag, þau eru keypt með það í huga að fermingarbarnið geti notað þau áfram á skólaböllin, í aðrar veislur eða geti brotið þau upp og notað hversdagslega.

Lakkrísbindi frá pabba

Ekkert kemur í staðinn fyrir flott jakkaföt á strákana. Í ár eru jakkafötin dökk, svört eða grá, og teinótt. Skyrturnar eru oftast einlitar, svartar, rauðar, bleikar eða hvítar, og við þær er í tísku að vera með einlitt bindi, t.d. svart eða rautt og svo má líka grafa upp gamla lakkrísbindið hans pabba. Skórnir hjá strákunum mjókka í tána og eru svartur og hvítur vinsælustu litirnir í þeim.

Fermingarbörn þurfa ekki að kaupa heila settið í einni búð heldur er hægt að setja það saman úr mörgum búðum, grafa eitthvað gamalt úr skápnum hjá ömmu eða mömmu, jafnvel fermingarkjólinn þeirra, eða fara í búð sem selur notuð föt og finna eitthvað sætt þar. Handlagnir geta líka saumað sín föt sjálfir.

Hafa skal samt í huga að hver og einn á að kaupa föt við sitt hæfi, það sem honum finnst flott og líður vel í.

ingveldur@mbl.is