Gaman Jóhann Björnsson kennari á fermingarnámskeiði Siðmenntar með hópi af unglingum sem munu fermast borgaralega í ár.
Gaman Jóhann Björnsson kennari á fermingarnámskeiði Siðmenntar með hópi af unglingum sem munu fermast borgaralega í ár. — Morgunblaðið/Golli
Frá árinu 1989 hefur Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, staðið fyrir borgaralegum fermingum, þær verða sífellt vinsælli og standa öllum unglingum til boða.

Frá árinu 1989 hefur Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, staðið fyrir borgaralegum fermingum, þær verða sífellt vinsælli og standa öllum unglingum til boða.

Frá upphafi hafa 883 börn fermst borgaralega hjá Siðmennt og í ár verða þau 111, í fyrra fór fjöldi fermingarbarna hjá Siðmennt í fyrsta skipti yfir hundrað og verður svo aftur í ár. En þess má til gamans geta að árið 1989 voru það sextán unglingar sem létu ferma sig og fjöldinn hefur farið stigvaxandi síðan.

Íslenska orðið ferming er þýðing á latneska orðinu "confirmare" sem merkir m.a. að styðja og styrkja. Ungmenni sem fermast borgaralega eru einmitt studd í því að vera heilsteyptir og ábyrgir borgarar í lýðræðislegu samfélagi en megintilgangur borgaralegrar fermingar er að efla heilbrigð og farsæl viðhorf unglinga til lífsins og kenna þeim að bera virðingu fyrir manninum, menningu hans og umhverfi.

Með kirkjulegri fermingu staðfestir einstaklingurinn skírnarheit og játast kristinni trú. Mörg ungmenni á fermingaraldri eru ekki reiðubúin til að vinna trúarheit. Sum eru annarrar trúar eða trúa á guð á sinn hátt og önnur eru ekki trúuð. Fyrir þau ungmenni er borgaraleg ferming góður kostur. Allir sem áhuga hafa geta fermst borgaralega, jafnvel þótt þeir telji sig trúaða eða tilheyri trúfélagi. Fjölmargir þátttakendur með ólíkar lífsskoðanir fermast borgaralega ár hvert. Sumir tilheyra trúfélögum og aðrir ekki.

Undirbúningur

Fermingarbörnin sækja vönduð námskeið þar sem þau læra ýmislegt sem er góður undirbúningur fyrir það að verða fullorðinn með öllum þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Ungmenni hvaðanæva að af landinu mynda fermingarhópa sem sækja undirbúningsnámskeið.

Á undirbúningsnámskeiðunum er það talinn kostur hversu ólíkir þátttakendur eru þegar kemur að lífsafstöðu þeirra og skoðunum, enda hefur það margoft sannast á námskeiðunum að þrátt fyrir ólíkan bakgrunn og mismunandi skoðanir hafa þátttakendur vel getað rökrætt og átt samskipti á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Haldin eru námskeið í Reykjavík sem eru alls tólf skipti, 80 mínútur í senn einu sinni í viku og hefjast í byrjun janúar ár hvert. Fyrir börn af landsbyggðinni er boðið upp á námskeið sem standa yfir í tvær helgar í Reykjavík. Ef næg þátttaka er fyrir hendi á tilteknum stað á landsbyggðinni getur Siðmennt skipulagt námskeið og útvegað kennara. Einnig er boðið upp á undirbúningsnámskeið í fjarnámi fyrir þátttakendur sem búa erlendis. Nokkrir þátttakendur hafa þegar tekið þátt með slíkum hætti.

Sérstakir kennarar kenna og hafa umsjón með hópunum og auk þeirra koma gestafyrirlesarar í heimsókn. Á undirbúningsnámskeiðunum eru umfjöllunarefnin fjölbreytt. Fjallað er um samskipti unglinga og fullorðinna, fjölskylduna, mismunandi lífsviðhorf, frelsi, ábyrgð, hamingju, gleði, sorg, samskipti, mannréttindi og réttindi unglinga, jafnrétti, siðfræði, efahyggju og trúarheimspeki, baráttu fyrir friði, samskipti kynjanna, umhverfismál, fordóma o.fl. Foreldrum / forráðamönnum fermingarbarnanna er síðan boðið að koma í eina kennslustund undir lok námskeiðs.

Hápunktur fermingarinnar er virðuleg lokaathöfn sem foreldrar barnanna skipuleggja og stjórna með hjálp Siðmenntar. Þar eru börnin sjálf í aðalhlutverkinu. Þau koma fram prúðbúin, flytja ávörp, ljóð og sögur, spila á hljóðfæri og dansa svo fátt eitt sé nefnt. Að lokum fá þau skrautritað skjal til staðfestingar á því að þau hafi lokið fermingarnámskeiðinu.

www.sidmennt.is