Fermingarförðunin í ár tók mið af nýjustu tísku tískuhúsanna í New York, París og London í vor- og sumartískunni fyrir árið 2007.

Fermingarförðunin í ár tók mið af nýjustu tísku tískuhúsanna í New York, París og London í vor- og sumartískunni fyrir árið 2007. Björg Alfreðsdóttir förðunarfræðingur segir að fyrirsæturnar á sýningarpöllunum hafi mikið verið með silfurlitaða augnskugga og með látlausa varaliti eða gloss. Náttúruleg förðun var einnig fyrirferðarmikil, þar sem augu og varir voru farðaðar með mildum litum sem drógu fram náttúrulega fegurð fyrirsætanna. Þetta tvennt hafði hún að leiðarljósi þegar fermingarstelpurnar Gerður Guðnadóttir og Sólrún Kolbeinsdóttir voru farðaðar fyrir fermingarblaðið.

Björg segir að mikilvægt sé að velja ekki of sterka liti fyrir ungar stelpur og vill til dæmis ekki nota svartan lit nema þá helst bara í maskaranum, best sé þó að nota brúnan maskara, því svartur sé einfaldlega of sterkur litur fyrir ungar stelpur og yfirkeyri hreinlega ung andlit. Einnig þarf að huga að því að oftast eru teknar fermingarmyndir sem hanga uppi á stofuveggjum fjölskyldunnar svo árum skiptir og þá er um að gera að vera með klassíska förðun sem er tímalaus.

Húðin skiptir miklu máli þegar förðun er annars vegar. "Stelpur á fermingaraldri eru nú flestar með góða húð," segir Björg, þó svo að ein og ein bóla sjáist er það bara eðlilegt og ekkert mál að hylja þær. Best sé að hylja þær með hyljara sem er þykkari en farði og leyfa svo náttúrlegri húðinni að skína í gegn og ekki setja of mikinn farða yfir allt andlitið því það sé einfaldlega of mikið og verði grímulegt. Hún segir að einnig sé mikilvægt að hreinsa húðina reglulega og nota rakakrem ef húðin er þurr eins og hún getur verið núna í þessu þurra loftslagi sem er á höfuðborgarsvæðinu þessa dagana.

Gerður Guðnadóttir

Silfrað og sætt

Björg byrjaði á því að setja litað dagkrem á Gerði, á allt andlitið, einnig er hægt að nota mjög léttan farða.

Hyljari var settur aðeins undir augun þar sem húðin er þunn og bláleit og yfir augnlokið til að búa til góðan grunn fyrir augnskuggann. Einnig var settur hyljari í kringum nasavængina sem voru aðeins rauðir.

Létt litlaust púður var svo sett yfir allt andlitið með bursta til að taka í burtu glans. Mikilvægt er að púðra vel yfir augnlokin yfir hyljarann. Ef það er gert helst augnförðunin lengur á.

Næst var gegnsær hvítur augnskuggi settur yfir allt augað og silfurlitaður augnskuggi settur á augnlokið sjálft. Því næst var dregin lína með grábrúnum augnskugga meðfram augnhárum og einnig undir augun og aðeins skyggt með sama lit á augnbeinið. Brúnn maskari var borinn á augnhárin.

Á kinnbein var settur blautur kinnalitur sem var í ljósbleikbrúnum lit sem gefur mjög frísklegt útlit. En einnig er hægt að nota púðurkinnalit og sólarpúður sem ekki er síður fallegt.

Að lokum var svo sett bleikferskjulitað gloss á varirnar.

Sólrún Kolbeinsdóttir

Náttúrulegt, bjart og fallegt

Á Sólrúnu var byrjað á því að bera á andlitið krem með glitrandi ögnum í sem gefur húðinni mikinn gljáa án þess þó að hún verði glansandi.

Því næst var léttur farði settur á allt andlitið og hyljari settur allt í kringum augað og á rauð svæði í kringum nefið og aðeins á hökuna.

Púðrað var vel yfir augnlokið og aðeins yfir nefið, ennið og hökuna. Þetta eru þau svæði sem líklegust eru til að glansa þegar líður á daginn og getur því verið gott að hafa púðurdós við höndina og púðra yfir þau ef þau fara að glansa, sérstaklega áður en farið er í myndatökuna.

Því næst var settur ferskjulitaður augnskuggi á augnlokið og brúnn augnskuggi í skyggingu meðfram augnbeininu og meðfram efri og neðri augnhárum. Næst var sett örfín lína af brúnni blautri málningu (eyeliner) meðfram efri augnhárum og dreift vel úr henni í áttina að augnkróknum, hún á alls ekki að vera skörp heldur er hún einungis sett til að augnhárin virðist þykkari og kraftmeiri. Að lokum var settur ljós húðlitur augnskuggi alveg undir augabrúnirnar.

Greitt var úr augabrúnunum og smávegis vax sett í þær til að halda þeim á sínum stað og gera þær snyrtilegri.

Í lokin var svo settur brúnn maskari til að fullkomna augnförðunina.

Andlitið var skyggt með sólarpúðri, ekki of dökku, og síðan var settur ferskjubleikur kinnalitur á kinnbeinin til að fríska upp andlitið.

Á varirnar var svo sett ljósbleikt gloss með miklum glans.

Nú er um að gera að æfa sig fyrir stóra daginn því æfingin skapar meistarann.

Gangi ykkur vel.