— Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fermingarathöfnin á sér langa sögu og í bók Árna Björnssonar, Merkisdagar á mannsævinni , sem kom út hjá Máli og menningu árið 1996, má finna skemmtilega fróðleiksmola um ferminguna á Íslandi.

* "Orðið ferming er komið af latnesku sögninni Confirmare sem merkir að festa eða styrkja og er átt við staðfestingu skírnarsáttmálans sem gerður var að ómálga barninu fornspurðu."

* "Kristin kirkja tók í öndverðu talsvert af fermingarsiðum sínum í arf frá grískum, egifskum, sýrlenskum og öðrum helgisiðum í löndum fyrir botni Miðjarðarhafs."

* "Í kaþólskum sið mun hafa verið nokkuð breytilegt í aldanna rás eftir biskupsdæmum hvaða kunnáttu var krafist af fermingarbörnum. [...] Ævinlega hafa menn þó átt að kunna faðirvorið, trúarjátninguna og barnskírnarorðin. Síðar bættist við hin engillega bæn, Ave María, og um árið 1400 eiga menn á Íslandi auk þess að kunna tíu boðorð Guðs og innsetningarorðin við útdeilingu hins heilaga sakramentis."

* "Marteinn Lúter hafnaði í fyrstu fermingunni og taldi hana ekki sakramenti. Í stað hennar átti að koma fræðsla um meginþætti kristinnar trúar. [...] Ekki er víst að ferming hafi nokkru sinni lagst af með öllu á Íslandi eftir siðabreytingu. [...] Konungsvaldið tók að beita sér fyrir fermingum eða heittrúarstefnunni snemma á 18. öld. [...] Frá þeim tíma hefur sjálf fermingarathöfnin í stórum dráttum haldist í svipuðu formi fram á 20. öld. Fermingaraldurinn varð tíðast 14 ár."

* "Eftir tilskipun frá 1744 átti ferming helst að fara fram sunnudaginn fyrir Úrbanusmessu 25. maí eða sunnudaginn fyrir Mikjálsmessu 29. september ef söfnuðir voru mjög stórir. Síðan hefur aðalfermingartíminn verið á vorin frá því um páska og fram að þrenningarhátíð en í september og fram í byrjun október á haustin."

*"Eftir siðabreytinguna á 16. öld var oft talað um að börn kristnuðust eða væru tekin í kristinna manna tölu þegar þau fermdust. Sá skilningur virðist nefnilega hafa verið útbreiddur meðal alþýðu manna að þrátt fyrir skírnina væru börn hálfheiðin meðan þau voru ófermd."

* "Ferming var lögskyld fram að trúfrelsinu sem fylgdi stjórnarskránni 1874 og veitti auk þess viss borgaraleg réttindi. Ferming og altarisganga voru til að mynda skilyrði fyrir hjónavígslu. [...] Eftir að lög um utanþjóðkirkjumenn voru sett 1886 öðluðust ófermd börn sömu réttindi og önnur við 14 ára aldur. Lög um trúfélög frá 1975 afnámu formlega það sem eftir stóð af þessum gömlu lagafyrirmælum."

* "Hvað sem öllum kristnidómi og lagagreinum leið voru það nánast óskráð lög fram á 20. öld að fermingin markaði stórt skref í þá átt að teljast kominn í fullorðinna manna tölu."

* "Eftir að trúfrelsi komst á með stjórnarskránni 1874 varð fermingin í æ ríkara mæli ákvörðunarefni barnanna sjálfra auk foreldranna. [...] Í Norræna húsinu í Reykjavík 9. apríl 1989 fór fram fyrsta borgaralega fermingin á Íslandi sem var óháð öllum skipulögðum trúarbrögðum. Í framhaldi af undirbúningi þeirrar athafnar var síðar stofnað félagið Siðmennt árið 1990."

* "Ekki sést getið um nein sérstök fermingarföt fyrr en langt var liðið á 19. öld og verslun við útlönd hafði aukist að miklum mun. Börn voru blátt áfram fermd í sínum bestu fötum eða lánsflíkum, stúlkur oftast í peysufötum nokkuð fram yfir aldamót. [...] Kringum 1920 tók ný fermingartíska að ryðja sér rúms og hélst í stórum dráttum fram á miðja 20. öld. Stúlkur voru þá í kjólum sem oftast voru hvítir eða í öðrum björtum lit en drengir í dökkum jakkafötum. [...] Það var ekki fyrr en eftir miðja 20. öld sem fermingarkyrtlar voru notaðir fyrir bæði kynin. Hugmyndina að þeim átti síra Jón M. Guðjónsson á Akranesi og var fyrsta ferming í kyrtlum árið 1954."

* "Laust eftir aldamótin 1900 fór að tíðkast að tekin væri ljósmynd af fermingarbarni í fermingarfötum sínum. Það var oft fyrsta myndin sem tekin var af einstaklingi og þáttur í þeirri mannvirðingu sem fermingin veitti."

* "Um fermingarveislur og fermingargjafir sést ekki getið fyrr en eftir miðja 19. öld. [...] Veisluhöld og gjafir til ferminga aukast jafnt og þétt eftir því sem efnahagur þjóðarinnar batnar og kaupmáttur almennings eykst. Nokkur afturkippur verður samt öðru hverju eins og á kreppuárum fjórða áratugarins. [...] Fermingarveislur voru oftast fyrir heimilisfólkið eitt ásamt nánustu ættingjum og kunningjum. Framan af fólust þær einkum í kaffi, súkkulaði, kökum og tertum en um miðja 20. öld verða matarveislur algengar. Stórveislur voru fátíðar. Fermingargjafir voru af ýmsum toga, í fyrstu er einkum getið um bækur og flíkur, seinna peninga, skartgripi og snyrtidót. Í sveitum gat einnig verið um að ræða kind, hest og reiðtygi. Á þriðja áratugnum verða vasaúr vinsæl fyrir þá sem höfðu ráð á og á fjórða áratugnum koma armbandúr til sögunnar. [...] Reiðhjól varð einnig dæmigerð fermingargjöf á fjórða og fimmta áratugnum. Fermingarskeyti komu til sögunnar um svipað leyti. Um og eftir miðja 20. öldina fer að bera á því að gefin séu húsgögn, myndavélar og svefnpokar eða annar ferðabúnaður. Eftir 1970 verða alls konar hljómflutningstæki sífellt algengari sem fermingargjafir. Utanlandsferðir fóru þá líka að færast í vöxt."

* "Á seinustu áratugum hefur ferming orðið meiri félagslegur viðburður en áður því það er engin bein skylda sem rekur menn til þess að fermast. Börn öðlast engin ný réttindi við ferminguna og skólaskyldu er ekki lokið eins og áður var. Hvorki verða þau sjálfráða né komast út á vinnumarkaðinn. [...] Það liggur oft ekki mikil trúsannfæring á bak við ferminguna í dag, þó það geri það vissulega hjá sumum, en meginástæðan fyrir fermingunni virðist vera fylgi við ríkjandi siði og venjur. Fermingin er gamall þjóðarsiður."