Úti og inni "Góð mynd er viðhorf, hún byrjar í huga og hjarta þess sem á að mynda. Ef einhver vill af sér góða mynd þá treysti ég mér til að spila með og búa hana til," segir Finnbogi sem býður upp á óformlega og formlega myndatöku.
Úti og inni "Góð mynd er viðhorf, hún byrjar í huga og hjarta þess sem á að mynda. Ef einhver vill af sér góða mynd þá treysti ég mér til að spila með og búa hana til," segir Finnbogi sem býður upp á óformlega og formlega myndatöku.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég skammast mín ekkert fyrir fermingarmyndirnar mínar. Ein slík hangir uppi á vegg með öðrum fjölskyldumyndum. Svona var ég á þessum tíma.

Ég skammast mín ekkert fyrir fermingarmyndirnar mínar. Ein slík hangir uppi á vegg með öðrum fjölskyldumyndum. Svona var ég á þessum tíma. Allt tal um asnalegar myndir finnst mér vera hégómi þar sem fólk er að tala niður til sín og gerir lítið úr sjálfu sér, sem er aldrei gott," segir Finnbogi Marinósson spurður hvað honum finnist um fermingarmyndirnar sínar í dag. "Ég fór í fermingarmyndatöku til Gunnars í Suðurveri. Ég man eftir því og eitt af því sem ég man nýtist mér enn. Hann bað mig að hreyfa mig þannig að mér fannst það asnalegt og í dag veit ég svo vel að ýmislegt af því sem við biðjum fólk að gera kann að hljóma "asnalega" en það kemur vel út á mynd og það er það sem skiptir máli."

Fagið valdi hann

Finnbogi rekur ljósmyndastofuna Dagsljós sem er staðsett í Glerárgötu 36 á Akureyri.

"Ég lærði ljósmyndun í litlum skóla í Ann Arbor í Michigan-fylki í Bandaríkjunum, frá 1989 til 1992. Ég fór reyndar út með það í huga að læra barnasálfræði en á fyrstu önninni tók ég hálfgerðan byrjendakúrs í ljósmyndun, svona til gamans, vegna þess að ég hafði alltaf haft áhuga en aldrei lært neitt tengt ljósmyndun. Kennarinn vissi hvað hann var að gera og í rólegheitunum sneri hann mér í rétta átt og þegar ég hringdi heim undir annarlok til að segja að ég ætlaði að skipta um farveg, man ég að það var sagt: "Hann er búinn að fatta". Þannig að það mætti segja að fagið hafi valið mig frekar en ég hafi valið fagið.

Ljósmyndun er eitthvað sem ég hef alla tíð verið viðloðandi og ég á t.d. afskaplega skemmtilegar minningar úr grunnskóla þar sem við Þórður vinur minn tókum myndir á bekkjarkvöldum og unnum svo í þeim um nóttina til að hafa myndasýningu tilbúna fyrir bekkinn morguninn eftir," segir Finnbogi augljóslega sæll með að hafa verið leiddur á rétta braut.

Hann segir fermingarmyndatökur hafa breyst mikið síðan hann byrjaði að mynda.

"Þá var ekki boðið upp á tvískipta töku og allt var í þessu formlega fari sem það hafði alla tíð verið í."

Finnbogi býður öllum fermingarbörnum að koma tvisvar í töku til sín.

"Ég hef kallað það formlega og óformlega töku. Formlegi hlutinn er prúðbúinn drengur í jakkafötum eða uppáklædd stúlka með hárgreiðslu. Óformlegi hlutinn er hugsaður sem tækifæri til að mynda einstaklinginn eins og hann er, á hans forsendum. Krakkarnir hafa verið ótrúlega flott og frumleg í því sem þau hafa viljað gera. Áhugamálunum hefur verið blandað stíft inn í tökuna og þá á ég við allar hugsanlegar íþróttir, og já, það hefur komið hestur.

Ég býð upp á þessa tvískiptu myndatöku því að í fyrra skiptið veit fermingarbarnið ekki hvað það er að fara en þegar það er búið að fara einu sinni og kemur svo aftur þá veit það að hverju það gengur og slakar á. Við það skapast mjög fjölbreyttur grunnur að myndum til að vinna úr og fyrir vikið verður myndatakan betri."

Myndataka leikur

Spurður hvort honum finnist skemmtilegt að mynda fermingarbörn segir Finnbogi að það sé alltaf gaman að takast á við fólk og skiptir þá ekki máli hvort um ungan eða gamlan einstakling er að ræða. "Því verður hins vegar ekki neitað að það getur verið erfitt að mynda þann sem vill ekki taka þátt. Ég lít á myndatöku sem leik, þar sem myndefnið og ljósmyndarinn spila og báðir verða að taka þátt til þess að leikurinn gangi upp.

Góð mynd er viðhorf, hún byrjar í huga og hjarta þess sem á að mynda. Ef einhver vill af sér góða mynd þá treysti ég mér til að spila með og búa hana til."

ingveldur@mbl.is

www.dagsljos.is