Namminamm Bókakakan er vinsæl í fermingarveislurnar segir Guðni.
Namminamm Bókakakan er vinsæl í fermingarveislurnar segir Guðni. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fermingarkakan er ómissandi fyrir flesta í fermingarveisluna. Guðni Hólm, bakari og eigandi Kökuhornsins í Bæjarlind í Kópavogi, hefur ekki farið varhluta af því að fermingarnar nálgast.

Fermingarkakan er ómissandi fyrir flesta í fermingarveisluna. Guðni Hólm, bakari og eigandi Kökuhornsins í Bæjarlind í Kópavogi, hefur ekki farið varhluta af því að fermingarnar nálgast. "Það er búið að panta þónokkuð af fermingarkökum hjá okkur nú þegar og það er heilmikið hringt og spurt út í kökurnar," segir Guðni.

"Svokallaðar bókakökur eru mjög vinsælar í fermingarveisluna en kransakökurnar hafa dalað. Ég veit ekki af hverju kransakökurnar hafa orðið óvinsælli en líklega hefur það eitthvað að gera með að krakkar eru yfirleitt ekki mjög hrifnir af þeim en í staðinn er fólk farið að taka meira af svona Rice Krispies-kökum sem eru í laginu eins og kransakökur."

Myndir á kökurnar

Spurður hvort það séu einhverjar tískusveiflur í kökum milli ára segir Guðni þær nú litlar en alltaf einhverjar. "Það er orðið meira um það núna að fólk biðji um ákveðið litaþema á kökurnar. Á bókakökurnar er yfirleitt beðið um nafnið og fermingardaginn og vissa liti á skrautblómin. Síðan er alltaf að verða vinsælla og verður líklega mjög vinsælt í ár að láta prenta út myndir af fermingarbarninu á kökuna. Foreldrarnir senda okkur þá mynd af fermingarbarninu, t.d. að stunda sitt áhugamál, og við prentum hana út í þar til gerðum prentara á þunnt sykurmassablað og setjum á kökuna. Sumir setja líka á kökuna merki þess íþróttafélags sem krakkinn er í eða heldur upp á, t.d. í enska fótboltanum. Það var svolítið um þessar myndskreytingar á kökurnar í fyrra og þær verða líklega mikið í ár," segir Guðni og bætir við að annað sem sé að verða vinsælla séu súkkulaðitertur, en það er farið að biðja meira um þær sem fermingarkökur en áður.

Mismunandi frómas

Bókakakan er yfirleitt gerð úr svampbotni, en einnig er hægt að hafa súkkulaðiköku, og svo getur hver og einn valið ákveðinn frómas á milli botnanna og ávexti, ferska eða kokteil. "Stærðin á kökunni sem er pöntuð fer svo bara eftir því hversu margir koma í veisluna en fer líka eftir því hvort verið er með kökuveislu eða matarveislu. Betra er að taka stærri köku ef það er matarveisla því þá fá sér flestir kökubita á eftir matnum."

Guðni segir svolítið um það að fólk panti heila kökuveislu hjá Kökuhorninu fyrir ferminguna enda sé orðið minna um það að fólk baki heima en áður.

ingveldur@mbl.is