[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjafnarblóm á Selfossi er ein af þessum vinalegu blómaverslunum sem unun er að heimsækja og vöruúrvalið virðist óþrjótandi.

Sjafnarblóm á Selfossi er ein af þessum vinalegu blómaverslunum sem unun er að heimsækja og vöruúrvalið virðist óþrjótandi. Blaðamaður og ljósmyndari litu inn hjá þeim á dögunum og forvitnuðust um hvað væri helst í gangi í fermingarskreytingum þetta árið. Kolbrún Markúsdóttir, einn af eigendum Sjafnarblóma, tók vel á móti okkur og fræddi okkur um nýjustu strauma og stefnur.

"Það er ansi margt í gangi þetta árið, en sterkir og skærir litir eru þónokkuð áberandi. Má þar nefna appelsínugulan, skærbleikan, túrkísbláan og grænan. Þess má geta að þó að margar mæðurnar fái hroll, þá er svarti liturinn þónokkuð vinsæll meðal strákanna sem hingað koma og finnst mér um að gera að leyfa þeim að ráða, fyrst þeir sýna áhuga á annað borð," segir Kolbrún hlæjandi og bætir við: "Þessi litagleði á bæði við almennt um skreytingar fyrir veislurnar, sem og í þessum klassísku kertaskreytingum sem alltaf eru ómissandi í ferminguna. Við handmálum kertin sjálf, sem gefur fleiri möguleika við gerð skreytinganna, auk þess sem við höfum verið í auknum mæli að nýta sálmabækur fermingarbarnsins sem hluta af kertaskreytingunum. Mér finnst það gera þær einhvern veginn persónulegri og gefa enn trúarlegri blæ."

Við getum svo sannarlega mælt óhikað með því að fólk fái sér bíltúr á Selfoss til þeirra í Sjafnarblómum og gefi sér góðan tíma í ró og næði til að velja skreytingar fyrir veisluna. Sjafnarblóm tekur einnig að sér að sjá um veisluskreytingar frá a til ö með fegurð og fagmennsku í fyrirrúmi.