Skraut "Það er minna um hárskraut en áður en núna eru þær með hárspangir eða litla semilíusteina, eins og fiðrildi eða blóm, sem er stungið hér og þar í hárið."
Skraut "Það er minna um hárskraut en áður en núna eru þær með hárspangir eða litla semilíusteina, eins og fiðrildi eða blóm, sem er stungið hér og þar í hárið." — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Línan í dag hjá stelpunum er nokkuð slegin, með liðum eða krullum, það er mjög lítið um að hárið sé sett upp en nokkuð um að það sé greitt til hliðar," segir Lilja Sveinbjörnsdóttir, eigandi Hár gallerís á Laugavegi, spurð hver...

"Línan í dag hjá stelpunum er nokkuð slegin, með liðum eða krullum, það er mjög lítið um að hárið sé sett upp en nokkuð um að það sé greitt til hliðar," segir Lilja Sveinbjörnsdóttir, eigandi Hár gallerís á Laugavegi, spurð hver fermingargreiðslan sé í ár. "Það er minna um hárskraut en áður en núna eru þær með hárspangir eða litla semilíusteina, eins og fiðrildi eða blóm, sem er stungið hér og þar í hárið."

Lilja segir að við fermingaraldur séu stelpur að byrja að lita á sér hárið. "Litirnir eru samt frekar náttúrulegir og ekki langt frá þeirra eigin hárlit. Línan í dag, hvort sem það er í lit, klippingu eða greiðslu, er náttúruleg."

Fermingarstelpurnar í ár eru nærri undantekningarlaust alltaf með sítt hár og segist Lilja varla muna til þess að hafa fengið fermingarstelpu inn á stofuna til sín undanfarin ár með styttra hár en axlasítt.

"Þegar stelpurnar eru búnar að hafa fyrir því að safna svona síðu hári er alltaf fallegra að það fái að njóta sín í greiðslunni. Hugmyndin að þeirri fermingarhárgreiðslu sem er í tísku hverju sinni mótast yfirleitt af því sem er í gangi, eins og nú er liðað hár búið að vera nokkuð í tísku og þá mótast ósjálfrátt fermingargreiðslan af því. Svo leggja krakkarnir sjálfir líka línurnar og eru oft með sterkar hugmyndir um hvað þeir vilja."

Lilja segir að strákarnir komi líka í klippingu og litun fyrir ferminguna.

"Strákarnir koma í klippingu og strípur fyrir ferminguna og kaupa sér svo geldós og fá kennslu í því hvernig þeir geta mótað hárið á sér sjálfir á fermingardaginn.

Strákamódelið mitt á myndunum er t.d. með klippingu sem verður vinsæl hjá fermingarstrákum í ár . Ég setti í hann smávegis ljósar strípur til að skerpa hans eigin lit og svo er klippingin með smá skátopp, sítt í hliðunum og mikið af styttum og greitt upp í loftið."

Búið er að panta heilmikið nú þegar í fermingargreiðslur á stofunni hjá Lilju sem hefur gengið í gegnum margar greiðslurnar enda rekið Hár gallerí á sama stað á Laugavegi 27 í tuttugu ár.

ingveldur@mbl.is