Séra Guðbjörg Arnardóttir við altarið í Oddakirkju þar sem hún er prestur.
Séra Guðbjörg Arnardóttir við altarið í Oddakirkju þar sem hún er prestur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það eru ekki einungis fermingarbörnin í Oddaprestakalli sem eru spennt fyrir fermingardeginum því þetta verður líka stór dagur hjá prestinum í sókninni sem fermir nú í fyrsta sinn. Guðbjörg Arnardóttir var sett í embætti prests í Odda í sumar og segist hlakka til að ferma krakkana.

Mér finnst fermingarundirbúningurinn mjög skemmtilegur, það er gaman að vera með þessa krakka og gefandi að hitta þau alltaf einu sinni í viku. En mér finnst skipta máli að þau nái að hitta prestinn sinn og mynda persónuleg tengsl við hann og kirkjuna fyrir ferminguna svo að trúin verði hluti af þeirra daglega lífi," segir Guðbjörg sem fermir tíu börn í ár.

Undir Oddaprestakall teljast þrjár kirkju, í Odda, á Keldum og í Þykkvabæ, með 1.070 sóknarbörnum. "Fermingarárgangurinn í ár er óvenjulega lítill en þau fermast samt ekki öll í einu heldur skiptast í tvær fermingar í Oddakirkju og eina í Þykkvabæ, fyrsta og annan sunnudag eftir páska og á hvítasunnunni."

Fermingin skiptir máli

Guðbjörg byrjaði fermingarundirbúninginn með krökkunum í september þegar öll fermingarbörn í Rangárvallaprófastdæmi fóru saman á fermingarnámskeið í Vatnaskógi. "Strax eftir það fóru krakkarnir að koma til mín í safnaðarheimilið á Hellu einu sinni í viku í spurningar. Ég reyni að vera með fræðslu um ákveðin gildi, um kirkjuna og trúna, set fyrir verkefni og spjalla við þau. Þau velta þessari athöfn fyrir sér og spyrja grundvallandi spurninga en þau spyrja mig líka heilmikið efaspurninga, athuga hvort þau geti ekki rekið mig á gat og svoleiðis. En ég finn að trúin og fermingin skiptir þau máli."

Það kom ekki annað til greina hjá krökkunum tíu en láta ferma sig segir Guðbjörg. "En þau velta fermingunni fyrir sér og vilja taka gagnrýna ákvörðun. Mér finnst kostur að hafa svona fáa krakka því þá myndast persónuleg og náin tengsl við þau og við getum gefið okkur tíma til að tala um það sem þeim liggur á hjarta. Ég hef líka fengið þau til að aðstoða í guðsþjónustum á spurningatímanum og hvet þau til að mæta í messu, sem þau hafa verið dugleg við, svo það sé þeim ekki framandi að koma í kirkju á fermingardaginn."

Stuðningur frá kirkjunni

Guðbjörg segir ferminguna mikilvæga fyrir kirkjuna því þá fái kirkjan tækifæri til að ná sambandi við þennan hóp fólks. "Fermingin er mikilvæg upp á það að gera að hún hjálpar okkur að halda tengslum við þennan aldurshóp og við fáum fullan stuðning frá þjóðfélaginu líka því þetta er samfélagslegt. Fermingin er fyrirbæn og blessun en samfélagslega eru þau tekin inn í tölu fullorðinna. Fermingarfræðslan er líka holl því krakkar á þessum aldri eru að spekúlera í svo mörgu og skoða og þá er líka gaman fyrir þau að fá tækifæri til að koma í kirkjuna sína og spyrja spurninga, tilvistarspurninga um lífið, trúna og sjálf sig. Þá getur kirkjan verið stuðningsaðili þegar sjálfsmyndin er að mótast, hún getur komið fram með þennan frábæra boðskap sem hún hefur; miðlað kærleikanum og mikilvægi hverrar manneskju þannig að kirkjan getur átt þátt í að móta jákvæða sjálfsmynd krakka á þessum aldri sem er oft viðkvæm."

Guðbjörg segist sjálf hafa tekið ferminguna alvarlega á sínum tíma. "Ég tók þettu virkilega alvarlega, hafði gaman af fermingarfræðslunni og lærði allt sem ég átti að læra en það var líka á þessum árum sem ég var að ákveða að ég vildi læra guðfræði. Fermingardagurinn sjálfur var svo mjög gleðilegur," segir Guðbjörg sem fermdist í Selfosskirkju árið 1990.

Standa saman

Guðbjörg segir ýmislegt skemmtilegt hafa komið upp í fermingarfræðslunni en það hafi þó verið sérstaklega jákvætt síðasta haust þegar fermingarbörn í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar gengu í hús með söfnunarbauka fyrir hjálparstarfið.

"Mér finnst þessi söfnun sérlega jákvæð því með henni komast þau í kynni við fleiri stofnanir kirkjunnar. Við fræddum þau um fyrir hverju var verið að safna og ég man eftir því hvað þeim þótti gaman að taka þátt og þau fundu hvað það var gott að gera gagn. Þannig að það eru ekki alltaf innantóm orð og fyrirlestrar í spurningunum."

Það leggst vel í þennan unga prest að ferma í fyrsta skipti. "Mér finnst það ofsalega spennandi og ég hef reyndar stundum sagt það við krakkana að við verðum öll að standa saman í athöfninni því ég sé að gera þetta í fyrsta sinn og verði kvíðin eins og þau, þeim finnst það líka gaman og upphefð í því að fá að vera fyrstu fermingarbörnin."

ingveldur@mbl.is

Höf.: ingveldur@mbl.is