Kína Jökull býr í stórborginni Hong Kong en mun fermast borgaralega á Íslandi í sumar.
Kína Jökull býr í stórborginni Hong Kong en mun fermast borgaralega á Íslandi í sumar.
Jökull Helgi Sigurðsson er fermingarstrákur sem býr í Hong Kong. Hann ætlar að láta ferma sig borgaralega á Íslandi í sumar og stundar nú fermingarfræðslu í fjarnámi frá Siðmennt.

Fyrir þremur árum spurði mamma mín hvort ég vildi koma með sér til Taipei og við fluttum þangað. Eftir eitt ár þar fórum við til Hong Kong og erum búin að vera hér í eitt og hálft ár," segir Jökull um ástæðu dvalar sinnar í Kína.

"Þessi tími hér hefur verið mjög góður og lærdómsríkur. Ég er búinn að kynnast heiminum og annarri menningu og svo hef ég lært ensku og smá í kínversku."

Jökull er búinn að vera í kínverskunámi í eitt og hálft ár.

"Það er mjög erfitt að læra þetta tungumál af því að það er svo öðruvísi en hin tungumálin, eins og ensku táknin, og framburðurinn er gríðarlega flókinn."

Heldur íslenskunni við

Jökull fermist borgaralega á Íslandi um miðjan ágúst og segist ætla að halda hefðbundna fermingarveislu fyrir fjölskyldu og vini.

Spurður hvers vegna hann ákvað að láta ferma sig borgaralega segist hann vilja vera meira opinn fyrir öðrum trúarbrögðum.

"Ég myndi segja að fermingin væri mjög mikilvæg fyrir fjölskylduna mína en mér sjálfum finnst hún ekkert það mikilvæg."

Honum finnst gott og skemmtilegt að vera í fjarnámi í fermingarfræðslunni og segir það halda íslenskunni við.

Haga sér betur

Eins og gefur að skilja missir Jökull af jafnöldrum sínum hér á Íslandi og segir það vera nokkuð slæmt enda minnki samskiptin við gömlu vinina eftir því sem lengra líður frá því að hann hitti þá.

Jökull gengur í alþjóðlegan skóla í Kína og segir flesta krakkana í skólanum vera frá Bretlandi og Ástralíu þó að Kínverjar séu þar líka. Hann segir jafnaldra sína í Kína ekkert svo ólíka jafnöldrunum á Íslandi þó hann sé nú á því að þeir hagi sér kannski betur en íslensk ungmenni.

Að lokum er vert að spyrja Jökul hvort það sé eitthvað svipað fermingunni á Íslandi í Kína.

"Ég er ekki viss um fermingu í búddatrú og svo er fólk allrar trúar í Hong Kong, þannig að það er ekki neinn að tala um fermingu hér."

ingveldur@mbl.is