Fjölskyldan öll saman Systurnar fimmtán með foreldrum sínum: Efri röð frá vinstri: Unnur, Svava, Magga, Jóna, Auður, Lára, Rannveig. Neðri röð frá vinstri: Erla, Björg, Lilja í fangi Eiríks pabba, Ólöf, Magnfríður, Björk, móðirin Sigrún, Stefanía, Inga.
Fjölskyldan öll saman Systurnar fimmtán með foreldrum sínum: Efri röð frá vinstri: Unnur, Svava, Magga, Jóna, Auður, Lára, Rannveig. Neðri röð frá vinstri: Erla, Björg, Lilja í fangi Eiríks pabba, Ólöf, Magnfríður, Björk, móðirin Sigrún, Stefanía, Inga.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur khk@mbl.is Ég var ekkert að gera mál úr því þó að ég fengi ekki að fermast. Ég fékk berkla og var á spítala fermingarárið mitt og þess vegna gat ég ekki fermst. Ég tók þessu eins og hverju öðru sem að höndum bar.

Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur

khk@mbl.is

Ég var ekkert að gera mál úr því þó að ég fengi ekki að fermast. Ég fékk berkla og var á spítala fermingarárið mitt og þess vegna gat ég ekki fermst. Ég tók þessu eins og hverju öðru sem að höndum bar. Ég lifði bara góðu lífi þrátt fyrir það að hafa ekki fermst," segir Inga Eiríksdóttir sem átti að fermast árið 1944 en vegna veikindanna gat ekkert orðið úr fermingu.

Inga ólst upp í Laugarnesinu en hún er níunda í röðinni af fimmtán alsystrum og sex þær elstu og tvær þær yngstu fermdust eins og lög gera ráð fyrir.

"En við hinar sjö gátum ekki fermst vegna berklaveikinda. Flestar okkar systranna smituðust af berklum og Rannveig elsta systir mín varð mjög veik og var höggvin, það var tekið úr henni rif. Á þessum tíma voru engin lyf, maður þurfti bara að liggja þetta úr sér. Ég var lögð inn á Hafnarfjarðarspítala og lá þar í rúmt ár með níu kerlingum á stofu. Þetta var þónokkur lífsreynsla fyrir ungling, því konur dóu við hlið mér. Ég man sérstaklega eftir gullfallegri rauðhærðri ungri konu sem var svo mikið veik, ég vorkenndi henni. Hún fór á hælið. Nunnurnar sáu um mig þarna á spítalanum og þær voru ekkert sérstaklega barngóðar."

Blúndulagðir undirkjólar

Inga var látin ganga til prestsins eftir að hún náði heilsu og lærði eitt og annað þar, hún segist alla vega enn kunna faðirvorið. Hún segir að sjálfsagt hafi hún sætt sig svona vel við að fá ekki að fermast, af því að systurnar næstar henni í aldri voru líka ófermdar.

"En ég man vel hvað mér fannst gaman þegar eldri systur mínar voru að fermast, sérstaklega hún Lára. Hún fékk ótrúlega fallega undirkjóla í fermingargjöf sem ég var alveg heilluð af. Þeir voru blúndum lagðir og svo fínir að það væri hægt að fara í þeim á ball núna ef þeir væru dregnir fram. Á þeim tíma tíðkaðist að gefa stúlkum undirkjóla og hver þeirra fékk marga slíka. Eins voru fínlegir silfurkrossar í hálsfesti vinsælar fermingargjafir. Og einhverjir sáu um að gefa fermingarbarninu líka biblíu eða sálmabók. Peningar voru aftur á móti ekki meðal þess sem barnið fékk í tilefni fermingarinnar."

Inga segir fermingarveislur systra sinna hafa verið haldnar heima en ekki í sölum úti í bæ, eins og nú þekkist. Hún er ekki hrifin af því hvernig fermingar nútímans hafa þróast út í neyslubrjálæði.

"Það eru þónokkur ár síðan ég hætti að fara í fermingarveislur sem okkur hjónunum er boðið til vegna þess að mér finnst þetta allt snúast um gjafir og peninga."

Fjórar systur eru dánar af þessum stóra hópi alsystra og Inga segir að nú finnist þeim þær vera orðnar svo fáar.

"Við erum bara ellefu eftir. Við erum stundum að gantast með það systurnar sem erum ófermdar að við ættum að drífa í því að láta ferma okkur núna á gamals aldri og láta bæinn styrkja okkur til þess. Og panta undirkjóla."