Rómantískar Öðruvísi gestabækur með þæfri ull úr Föndru.
Rómantískar Öðruvísi gestabækur með þæfri ull úr Föndru. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það hefur löngum verið til siðs í fermingarveislum að hafa gestabók við útganginn svo gestir muni eftir að kvitta fyrir sig að góðri veislu lokinni.

Það hefur löngum verið til siðs í fermingarveislum að hafa gestabók við útganginn svo gestir muni eftir að kvitta fyrir sig að góðri veislu lokinni. Það getur verið gaman fyrir fermingarbarnið að sjá eftir á hverjir mættu í veisluna, skoða skriftina hjá ættingjum á öllum aldri og geyma bókina svo á góðum stað í gegnum árin, því fátt er verðmætara en að eiga góða minningu frá þessum degi.

Í dag er mikil fjölbreytni í gestabókum, hægt er að fá þær t.d. leðurklæddar, útskornar úr tré eða með pappaspjaldi. Fyrir þá sem vilja vera öðruvísi er svo tilvalið að föndra sína eigin gestabók eða kaupa sér eina úr þæfðri ull sem er það nýjasta í dag.

Í Föndru við Dalveg í Kópavogi er hægt að fá gestabækur með þæfðri kápu og marga aðra hluti fyrir fermingarföndrið.

Ullarþæfing er ævafornt handverk sem nýtur mikilla vinsælda um þessar mundir og vinsælt er að þæfa merinoull og silki saman í t.d. sjöl, veski, pils, gestabækur og myndaalbúm.

Í Föndru er ullin þæfð og límd utan um t.d. MDF-trébók og síðan skreytt með þæfðum blómum eða útsaumi. Bæði er hægt að útbúa blaðsíðurnar í gestabókina sjálfur með t.d. handunnum pappír og eins er hægt að kaupa tilbúið plast og skera til pappír í það.

Það er tilvalið að huga að gestabókinni nokkru fyrir fermingardaginn því hún mun geyma dýrmætar minningar um ókomna framtíð.

ingveldur@mbl.is

Mánudaginn 12. mars verður sýnikennsla í Föndru frá kl. 14–18 í að gera svona bækur .